Ákvarðanir um brot 365 miðla ehf. og Ríkisútvarpsins ohf. vegna auglýsinga í dagskrá ætlaðri börnum

Fjölmiðlanefnd tók á fundi sínum þann 23. september sl. ákvarðanir í málum 365 miðlar ehf. vegna Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins ohf. vegna RÚV þar sem það var niðurstaða nefndarinnar að báðir fjölmiðlar hefðu brotið gegn ákvæði laga um fjölmiðla nr. 38/2011 sem bannar birtingu auglýsinga í dagskrá ætlaðri börnum yngri en 12 ára. Þar sem 365 miðlar ehf. birtu fjölmargar auglýsingar í tengslum við sýningu á Jóladagatali Skoppu og Skrítlu dagana 3.-9. desember 2012 og að virtum öðrum atvikum var 365 miðlum ehf. gert að greiða kr. 500.000 í stjórnvaldssekt. Ríkisútvarpið ohf. braut gegn ákvæðinu einu sinni þá daga sem skoðun nefndarinnar náði til eða þann 8. desember 2012 eftir útsendingu á Jóladagatali RÚV. Ríkisútvarpið viðurkenndi auk þess brot sitt og ákvað nefndin m.a. á grundvelli þessa að falla frá sektarákvörðun í því máli.

Upphaf málanna má rekja til þess að fjölmiðlanefnd barst ábending sem leiddi til þess að nefndin ákvað í upphafi árs að taka til skoðunar hvort þeir myndmiðlar sem sýndu jóladagatal fyrir börn í desembermánuði 2012 hefðu brotið gegn ákvæði 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 sem bannar auglýsingar 5 mínútum fyrir og 5 mínútum eftir útsendingu dagskrár sem ætluð er börnum yngri en 12 ára.

Í ákvörðun fjölmiðlanefndar í máli 365 miðla ehf. var það niðurstaða nefndarinnar að 365 miðlar ehf. hefðu brotið gegn ákvæðinu með sýningu fjölmargra auglýsinga í kringum Jóladagatal Skoppu og Skrítlu dagana 3.-9. desember 2012 á Stöð 2 og var 365 miðlum ehf. gert að greiða kr. 500.000 í stjórnvaldssekt.

365 miðlar ehf. andmæltu því að Jóladagatal Skoppu og Skrítlu væri dagskrá ætluð börnum yngri en 12 ára og töldu að ákvæðið ætti ekki við þar sem um væri að ræða fjölskylduþátt ætlaðan fyrir fleiri en börn yngri en 12 ára. Eins töldu 365 miðlar að um innslag með barnaívafi hafi verið að ræða í opna glugga Stöðvar 2 og því hafi ekki verið um sjálfstætt barnaefni að ræða.

Það var niðurstaða fjölmiðlanefndar að Jóladagatal Skoppu og Skrítlu væri með vísan til efnis, framsetningar og forms þáttanna auk kynningar 365 miðla á Jóladagatali Skoppu og Skrítlu sjálfstæð dagskrá ætluð börnum yngri en 12 ára. Þannig féllst nefndin hvorki á það sjónarmið 365 miðla ehf. að Jóladagatal Skoppu og Skrítlu væri innslag í opna glugga Stöðvar 2 ásamt fréttum, veðurfréttum og Íslandi í dag né að hann væri fjölskylduþáttur ætluðum fleirum en börnum yngri en 12 ára.

Þar sem um birtingu fjölmargra auglýsinga var að ræða í kringum útsendingu á Jóladagatali Skoppu og Skrítlu á Stöð 2 auk þess að nefndin hefði tvívegis áður komist að þeirri niðurstöðu að 365 miðlar ehf. hefðu brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla var ákveðið að leggja stjórnvaldssekt á 365 miðla ehf. Að því virtu að réttarframkvæmd og stjórnsýsla samkvæmt nýjum lögum um fjölmiða er í mótun og því eðlilegt að fjölmiðlaveitum sé ætlað nokkuð svigrúm til þess að laga starfsemi sína að breyttu lagaumhverfi, taldi nefndin hæfilegt að sektin næmi kr. 500.000.

Fjölmiðlanefnd tók ennfremur til skoðunar birtingu auglýsinga í tengslum við sýningu Jóladagatals hjá Ríkisútvarpinu ohf. sömu daga í desembermánuði 2012. Það var niðurstaða fjölmiðlanefndar í ákvörðun sinni að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn ákvæði 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla með sýningu auglýsinga eftir að Jóladagatali RÚV lauk laugardaginn 8. desember sl. á RÚV. Þar sem Ríkisútvarpið ohf. viðurkenndi að hafa brotið umrætt ákvæði laganna, um mistök hafi verið að ræða sem Ríkisútvarpið ohf. harmaði og að gripið hafi verið til ráðstafana til að forða því að þau verði endurtekin auk þess sem ákvæði 5. mgr. 41. gr. laganna var brotið einn útsendingardag af þeim 7 dögum sem til skoðunar voru ákvað fjömiðlanefnd m.a. að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Ákvörðun í máli 365 miðla ehf. má nálgast hér.

Ákvörðun í máli Ríkisútvarpsins ohf. má nálgast hér.