Russia Today braut reglur um hlutlægni í fréttaflutningi

Sjónvarpsstöðin RT (Russia Today) braut breskar reglur um hlutlægni í fréttaflutningi með umfjöllun sinni um átökin í Úkraínu í mars síðastliðnum. Þetta er niðurstaða breska fjölmiðlaeftirlitsins Ofcom frá 10. nóvember sl.  Í ákvörðun Ofcom  er varað við því að gripið verði til aðgerða gegn fréttastöðinni ef ekki verði úr bætt. 

Fréttastöðin RT  er fjármögnuð af rússneska ríkinu og hóf útsendingar í Bretlandi fyrir níu árum. Bresk útgáfa stöðvarinnar, RT UK, hóf göngu sína 30. október sl. Rannsókn Ofcom hófst í kjölfar kvartana sem bárust stofnuninni vegna frétta RT af stríðsástandinu í Úkraínu í mars sl., þ.e. átökum milli rússneskra aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu og úkraínska stjórnarhersins, sem leiddu til þess að Rússar lögðu Krímskaga undir sig.  Fréttaflutningurinn þótti fela í sér hlutdræga gagnrýni á ný stjórnvöld í Úkraínu.

Reglur Ofcom (e. „The Code“) gilda um starfsemi útvarps og sjónvarps og eru settar með stoð í breskum fjölmiðlalögum. Þær byggja meðal annars á þeim kröfum sem gerðar eru til hljóð- og myndmiðla í hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins 2010/13/ESB. Hlutlægnireglur Ofcom er að finna í 5. kafla og hljóðar regla 5.1 svo: „News, in whatever form, must be reported with due accuracy and presented with due impartiality.” (Fréttir, í hvaða formi sem er, verður að flytja og kynna með nákvæmni og hlutlægni að leiðarljósi).

Ólík sjónarmið verða að koma fram
Fréttaflutningur RT þótti brjóta gegn ofangreindu ákvæði þar sem í honum voru sjónarmið beggja deiluaðila ekki dregin fram. Þá var einnig talið að fréttaflutningur RT fæli í sér brot á reglum 5.11 og 5.12 en þær gera kröfur til þess að hlutlægni sé m.a. höfð að leiðarljósi í málefnum sem lúta að meiriháttar deilum á sviði stjórnmála. Þar segir að í slíkum tilfellum verði að koma ólíkum sjónarmiðum á framfæri í hverjum þætti eða í öðrum þáttum sem tengjast efninu með beinum hætti. Ekki megi draga upp ranga mynd af skoðunum og staðreyndum.

Ofcom segir að jafnvel þótt fallist verði á að sjónvarpsstöð sem fjármögnuð sé af rússneska ríkinu hafi, eðli málsins samkvæmt, tilhneigingu til að draga taum rússneskra stjórnvalda verði hún engu að síður að gæta hlutlægni í öllum fréttaflutningi, sérstaklega þegar um sé að ræða fréttir sem varði mikil pólitísk átök. Stöðin hafi brotið reglur um hlutlægni  í fréttaflutningi í fjórum tilvikum, þar sem fjallað var um ástandið í Úkraínu. Nánari umfjöllun um fréttaflutning RT af átökunum í Úkraínu má lesa í ákvörðun Ofcom.

Ofcom segir jafnframt að tjáningarfrelsinu fylgi skyldur, þar á meðal skylda fréttamiðla til að fjalla um báðar hliðar mála í pólitískum deilumálum.  Slíkar takmarkanir á tjáningarfrelsi teljist nauðsynlegar út frá sjónarmiðum um hlutlægni. Orðalagið „due impartiality“ þýði þó ekki að gera þurfi ólíkum skoðunum nákvæmlega jafnhátt undir höfði í hverjum fréttaþætti til að hlutlægnikrafan sé uppfyllt. Til dæmis þurfi ólík sjónarmið ekki að heyrast í nákvæmlega jafnlangan tíma,  heldur sé það í höndum hverrar fréttastöðvar að ákveða hvernig hlutlægni verði gætt. Hlutlægnikrafan þýði heldur ekki að óheimilt sé að gagnrýna stjórnvöld, ríki eða stefnu einstakra deiluaðila.

Væntir þess að aðrir fái sömu meðferð
Eftir að niðurstaðan lá fyrir voru forsvarsmenn RT boðaðir á fund með starfsmönnum Ofcom og þeim greint frá því að ítrekuð brot á hlutlægnireglum gætu leitt til aðgerða af hálfu breska fjölmiðlaeftirlitsins; stjórnvaldssekta eða í versta falli leyfissviptingar.Dagblaðið The Guardian greindi frá þessu á dögunum og einnig viðbrögðum Margarita Simonyan, framkvæmdastjóra RT við ákvörðuninni. Hún sagðist hlakka til þess að sjá breska fjölmiðlaeftirlitið taka með sambærilegum hætti á fréttaflutningi á öðrum stöðvum: „Sjónvarpsstöðvar í breskri lögsögu endurspegla ekki alltaf sjónarmið stjórnvalda sem eru á öndverðum meiði við stefnu evrópskra og bandarískra stjórnvalda. Ákvörðun Ofcom þýðir að þessu þarf að breyta, að minnsta kosti varðandi þá fjölmiðla sem lúta eftirliti Ofcom, eigi sömu reglur að gilda um alla. Við á RT höldum áfram að fara að reglum Ofcom í öllum okkar útsendingum.“

Þess má geta að reglu um hlutlægni fréttamiðla er einnig að finna í íslenskum lögum. Í 3. málsl. 1. mgr.  26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 segir að fjölmiðlaveita skuli gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna. Í 2. mgr. 26. gr. er þó tekið fram að hafi fjölmiðlaveita þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað sé henni óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins.