Norsk stjórnvöld ákváðu nýverið að setja vernd tjáningarfrelsis og stuðning við sjálfstæða fjölmiðla á oddinn í störfum sínum á alþjóðavettvangi. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi norska utanríkisráðuneytisins í Osló 18. janúar sl.

Hart hefur verið sótt að sjálfstæðum fjölmiðlum í Evrópu á undanförnum mánuðum og tjáningarfrelsi blaðamanna víða fyrir borð borið. Norðmenn hyggjast beita sér fyrir vernd tjáningarfrelsis, meðal annars með því að efla vernd þeirra sem tjá skoðanir sínar á opinberum vettvangi og bæta aðgengi almennings að upplýsingum.

„Upplýsingafrelsi er nýtt áherslusvið í utanríkisstefnu Noregs. Upplýsingafrelsi er grundvöllur þess að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir um líf sitt, þekki réttindi sín og geti nýtt sér þau,“ sagði Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, þegar tilkynnt var um frumkvæði Noregs á þessu sviði.

Utanríkisráðuneytið hyggst beita sér fyrir frjálsu flæði upplýsinga, bættu aðgengi að internetinu, og því að sett verði alþjóðleg viðmið um rétt almennings til upplýsinga. Að mati norskra stjórnvalda er brýn þörf á því að standa vörð um tjáningarfrelsið á sama tíma og örar tæknibreytingar og nýjar miðlunarleiðir ryðja sér til rúms.

Fréttatilkynning norska utanríkisráðuneytisins frá 18. janúar sl.