Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með birtingu auglýsingar fyrir Egils Gull á RÚV þann 14. október 2015 hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi.

Málavextir voru þeir að þann 16. október 2015 barst fjölmiðlanefnd kvörtun frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum, vegna meintra áfengisauglýsinga á RÚV. Í kvörtuninni var vísað til auglýsinga frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni á Egils Gulli, þar á meðal auglýsingar sem kvartandi kvað hafa birst á RÚV miðvikudagskvöldið 14. október sl. kl. 20.42. Að beiðni nefndarinnar afhenti Ríkisútvarpið fjölmiðlanefnd afrit af áðurnefndri auglýsingu þann 2. nóvember sl.
Í 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla segir að viðskiptaboð fyrir áfengi séu óheimil. Þá eru gerðar þær kröfur í 3. málsl. 4. mgr. 37. gr. laganna að fullyrðingar sem fram komi í viðskiptaboðum og fjarkaupainnskotum fyrir óáfengar drykkjarvörur þurfi að vera hægt að færa sönnur á. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um fjölmiðla segir að ákvæði 3. málsl. 4. mgr. 37. gr. sé sett fram til að taka af öll tvímæli um að þær óáfengu drykkjarvörur sem verið er að auglýsa séu sannanlega á markaði fyrir neytendur. Sé átt við drykki sem hafi minna en 2,25% áfengisinnihald, eins og segir í greinargerðinni. 
Fjölmiðlanefnd óskaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum Ríkisútvarpsins vegna meints brots á 4. mgr. 37. gr. laga. Sjónarmið Ríkisútvarpsins. bárust fjölmiðlanefnd með bréfum dags. 30. nóvember, 12. janúar og 17. febrúar og eru þau rakin í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að auglýsingin á Egils Gulli, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu 14. október sl., teldist til viðskiptaboða fyrir áfengi og að með birtingu hennar hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Í auglýsingunni sé í raun ekki vísað til vörutegundar sem hafi minna en 2,25% áfengisinnihald, heldur vörutegundar sem hlotið hafi verðlaun World Beer Awards árið 2011 og hafi 5% áfengisinnihald. Jafnframt sé vísað til áfengrar vörutegundar með því að birta myndir af glerflösku en ljóst sé að Egils Gull með 2,25% áfengisinnihaldi standi neytendum einungis til boða í álumbúðum. Því taldi fjölmiðlanefnd ekki augljóst að auglýsingin vísaði til óáfengs drykkjar, svo sem áskilið er í lögum, heldur vísaði hún þvert á móti til hinnar áfengu framleiðslu og vöruumbúða sem notaðar eru undir áfengan bjór með 5% áfengisinnihaldi. 

Taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi 250.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið mið af því að brotið var gegn 4. mgr. 37. gr. laganna og ávinnings af því.

Ákvörðun nr. 2/2016