Eru stafrænar útvarpsútsendingar framtíðin? Hvernig á að fjármagna almannaþjónustumiðla? Hvernig styðja stjórnvöld á Norðurlöndum við starfsemi fjölmiðla? Þetta var á meðal þess sem rætt var á fundi norrænna fjölmiðlaeftirlita í Stokkhólmi á dögunum. Hér er stutt samantekt á því markverðasta sem þar kom fram.

Aukinn stuðningur við fjölmiðla
Norsk stjórnvöld hafa samþykkt að fréttamiðlar á netinu verði undanþegnir virðisaukaskatti frá 1. mars 2016. Þar með sitja norskir vefmiðlar við sama borð og norskir prentmiðlar. Í Svíþjóð hefur verið ákveðið að verja um 35 milljónum sænskra króna í ríkisstyrki til sænskra prentmiðla á næstu fimm árum, í þeim tilgangi að styðja við þróun þeirra á netinu. Þess utan hafa norsk, dönsk, sænsk og finnsk dagblöð og vefmiðlar um langt skeið fengið árlega ríkisstyrki sem úthlutað er af þarlendum fjölmiðlaeftirlitum. 

Norðmenn og Danir skipta yfir í stafrænar útvarpsútsendingar
Í Noregi er stefnt að því að í lok árs 2017 verði alfarið búið að skipta yfir í stafrænar útvarpsútsendingar (DAB, Digital Audio Broadcast) en slíkar útsendingar gefa betri hljómgæði en venjulegar FM útsendingar. Danir eru í svipuðum hugleiðingum og hyggjast skipta alfarið yfir í stafrænar útvarpsútsendingar þegar hlustun á þær hefur náð 50% útbreiðslu meðal almennings, sem talið er að verði í fyrsta lagi eftir tvö ár. 

Framtíð og fjármögnun ríkisrekinna miðla


 


 


Noregur
Í Noregi er fjármögnun norska ríkismiðilsins NRK til endurskoðunar. Hingað til hefur NRK verið fjármagnaður með útvarpsgjaldi á meðan ríkismiðillinn TV2 er á auglýsingamarkaði. Skipuð hefur verið nefnd til að gera tillögur að fjármögnun til framtíðar og er gert ráð fyrir að niðurstöður hennar verði lagðar fyrir norska þingið í sumar.

Finnland
Í Finnlandi var á síðasta ári skipuð nefnd til að kanna starfs- og samkeppnisskilyrði á finnskum fjölmiðlamarkaði. Nefndin skilaði niðurstöðum í desember og lagði m.a. til að hlutverk ríkisfjölmiðilsins YLE verði skilgreint betur og ríkari kröfur gerðar til hans um kaup og sýningar á finnsku myndefni. Í kjölfarið hefur verið skipaður starfshópur sem ætlað er að endurskoða hlutverk og fjármögnun YLE.

Svíþjóð
Sænska fjölmiðlaeftirlitið vann á síðasta ári skýrslu um áhrif sænskra almannaþjónustumiðla á fjölmiðlamarkaðinn. Skýrslan er aðgengileg hér. Helstu niðurstöður í stuttu máli voru þær að áhrif almannaþjónustumiðla eru bæði jákvæð og neikvæð. Jákvæð áhrif birtast í því að almenningi býðst fjölbreytt efni, þar á meðal jaðarefni, bæði í hefðbundnum miðlum og nýmiðlum. Hins vegar hafa ríkismiðlarnir neikvæð áhrif á hluta markaðarins þar sem þeir keppa við einkarekna fjölmiðla. Fjölmiðlaeftirlitið telur þó að neikvæð áhrif almannaþjónustumiðla séu ekki meiri en við sé að búast í núverandi fjölmiðlaumhverfi.

Danmörk
Í Danmörku hefur hlutverk almannaþjónustumiðla og áhrif þeirra á samkeppnismarkað einnig verið til umræðu en þar í landi er í gildi þverpólitísk samþykkt  um stefnu stjórnvalda á sviði fjölmiðla til 2018. Til að gera megi breytingar á henni þarf samþykki allra flokka. Ekki er því gert ráð fyrir stórvægilegum breytingum á starfsemi DR eða annarra almannaþjónustumiðla á næstu árum.  

Starfsfólk fjölmiðlaeftirlita á Norðurlöndunum fundar einu sinni á ári í þeim tilgangi að ræða sameiginleg málefni og skiptast á upplýsingum um það sem hæst ber á fjölmiðlamarkaði og í starfseminni. Í ár sátu fundinn fulltrúar fjölmiðlanefndar, fulltrúar frá Mediatilsynet í Noregi, þar sem um fimmtíu manns starfa, Slots- og Kulturstyrelsen í Danmörku, sem hefur á að skipa sautján manna starfsliði, Myndigheten för press, radio och tv í Svíþjóð, þar sem þrjátíu og fimm starfsmenn eru að störfum og FICORA í Finnlandi, þar sem starfsmenn eru 240 en FICORA starfar bæði á sviði fjölmiðla og fjarskipta.