Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með því að sýna auglýsingar í þættinum Melodifestivalen, sem sendur var út á RÚV 12. mars 2016 hafi Ríkisútvarpið ohf. brotið gegn 3. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013. Taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnsýslusekt vegna brotsins næmi 250.000 kr.

Málavextir voru þeir að þann 12. mars 2016 var söngvakeppni sænska sjónvarpsins SVT, Melodifestivalen 2016, sýnd á RÚV. Á vef RÚV var dagskrárliðurinn kynntur með þeim hætti að um væri að ræða beina útsendingu frá sænsku söngvakeppninni Melodifestivalen.

Útsendingin var rofin með auglýsingum en skv. 3. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið er Ríkisútvarpinu almennt óheimilt að slíta í sundur dagskrárliði með viðskiptaboðum í sjónvarpi. Þó má víkja frá því við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða eða eigin framleiðslu sem er a.m.k. 60 mínútur að lengd.

Þann 14. mars sl. barst fjölmiðlanefnd erindi þar sem gerðar voru athugasemdir við framangreinda útsendingu með vísan til 7. gr. laga um Ríkisútvarpið.  Í erindinu kom fram að sýning á Melodifestivalen á RÚV hafi hafist hálftíma síðar en í Svíþjóð. Taldi kvartandi að útsendingunni hafi verið seinkað til þess að RÚV gæti rofið þáttinn með auglýsingum. Jafnframt var á það bent að SVT væri rekið án auglýsingatekna eins og kunnugt væri.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið er Ríkisútvarpinu eingöngu heimilt að rjúfa dagskrárliði í sjónvarpi með auglýsingum í undantekningartilvikum. Þau undantekningartilvik snúa annars vegar að eigin framleiðslu Ríkisútvarpsins sem er a.m.k. 60 mínútur að lengd og hins vegar að svokölluðum íburðarmiklum dagskrárliðum.

Fjölmiðlanefnd óskaði eftir sjónarmiðum Ríkisútvarpsins vegna málsins og bárust þau nefndinni með bréfum dags. 4. maí og 24. júní sl. Er efni þeirra rakið í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að með því að sýna auglýsingar í dagskrárliðnum Melodifestivalen á RÚV þann 12. mars 2016 hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 3. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.

Taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnsýslusekt vegna brotsins næmi 250.000 kr.

Ákvörðun nr. 4/2016