Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með birtingu auglýsinga í þáttunum Söngvakeppnin 2016 á RÚV, sem sýndir voru 6., 13. og 20. febrúar 2016, hafi Ríkisútvarpið ohf. brotið gegn 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið um auglýsingahlutfall innan hverrar klukkustundar. Með vísan til málatilbúnaðar Ríkisútvarpsins og þess að um var að ræða fyrsta brot félagsins gegn 4. mgr. 7. gr. var ákveðið að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Fjölmiðlanefnd bárust kvartanir þann 6., 13. og 20. febrúar, vegna meintra duldra viðskiptaboða og vöruinnsetninga í þáttaröðinni Söngvakeppnin 2016 sem sýnd var á RÚV þá sömu daga. Einnig var kvartað yfir hlutfalli viðskiptaboða innan hverrar klukkustundar, sem að mati kvartanda var umfram það leyfilega átta mínútna hámark, sem kveðið er á um í lögum um Ríkisútvarpið.

Fjölmiðlanefnd óskaði eftir sjónarmiðum Ríkisútvarpsins vegna málsins og bárust þau nefndinni með bréfum dags. 12. apríl, 6. maí, 12. maí og 3. júní sl. Efni þeirra er rakið í áliti fjölmiðlanefndar.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að ekki hafi verið færðar óyggjandi sönnur á að kostendur Söngvakeppninnar 2016 hafi greitt fyrir meintar vöruinnsetningar í þáttaröðinni. Því hafi Ríkisútvarpið ekki brotið gegn 7. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið um bann við vöruinnsetningum í efni sem Ríkisútvarpið framleiðir. Þá hafi umfjöllunin í nefndum þáttum ekki falið í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostenda með þeim hætti að hún geti talist falla undir 3. mgr. 42. gr. laga um fjölmiðla. Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar var m.a. vísað til þess að Ríkisútvarpið, starfsmenn þess og kostendur þáttanna þriggja hafi alfarið hafnað því að greitt hafi verið fyrir vöruinnsetningar í þáttunum.

Hins vegar var það niðurstaða fjölmiðlanefndar að Ríkisútvarpið hafi brotið gegn 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, um hlutfall auglýsinga innan hverrar klukkustundar.

Með vísan málatilbúnaðar Ríkisútvarpsins þess efnis að hagsmunir áhorfenda hafi legið að baki fyrirkomulagi auglýsinga og þess að þetta var fyrsta brot Ríkisútvarpsins gegn ákvæði 4. mgr. 7. gr. ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Álit nr. 1/2016