Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að umfjöllun Bæjarins besta um fiskeldi í 13. tölublaði 2016 hafi farið í bága við 1. mgr. 26. gr. laga um fjölmiðla um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni. Þá er það jafnframt niðurstaða fjölmiðlanefndar að framsetning sömu umfjöllunar hafi farið í bága við 1. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um aðgreiningu ritstjórnarefnis og viðskiptaboða, þar sem kostað efni hafi ekki verið merkt sem slíkt og nöfn þeirra kostenda sem styrktu útgáfuna hafi ekki verið tilgreind með skýrum hætti. Í ljósi viðbragða útgefanda og þess að þetta er fyrsta brot útgáfufélagsins gegn lögum um fjölmiðla ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Fjölmiðlanefnd barst kvörtun dags. 8. apríl sl., þess efnis að greinarflokkur um fiskeldi í 13. tölublaði Bæjarins besta, sem út kom fimmtudaginn 7. apríl 2016 og helgað var fiskeldi á Vestfjörðum, hafi að mati kvartanda farið í bága við 26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um lýðræðislegar grundvallarreglur og mögulega önnur ákvæði laga um fjölmiðla. Í kvörtuninni var vísað til umfjöllunar um fiskeldi á bls. 8-17 í 13. tölublaði 2016, sem kvartandi taldi „augljósa einhliða, að því er virðist, kostaða umfjöllun“.

Fjölmiðlanefnd óskaði eftir upplýsingum  og sjónarmiðum Athafnagleði ehf., útgefanda Bæjarins besta, og er efni erinda félagsins og fjölmiðlanefndar rakið í ákvörðun nefndarinnar.

Með hliðsjón af gögnum og atvikum máls var það niðurstaða fjölmiðlanefndar að fyllstu hlutlægni og nákvæmni hafi ekki verið gætt við ritun greinarflokksins Fiskeldið og hafi umfjöllun Bæjarins besta um fiskeldi í 13. tölublaði 2016 því ekki verið í samræmi við 1. mgr. 26. gr. laga um um fjölmiðla um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni.

Þá var það jafnframt niðurstaða fjölmiðlanefndar að framsetning umfjöllunar um fiskeldi í 13. tölublaði Bæjarins besta samræmdist ekki fyllilega 1. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um aðgreiningu ritstjórnarefnis og viðskiptaboða, þar sem kostað efni hafi ekki verið merkt sem slíkt og nöfn þeirra kostenda sem styrktu útgáfuna hafi ekki verið tilgreind með skýrum hætti.

Við málsmeðferðina kom ritstjóri og útgefandi Bæjarins besta því á framfæri við fjölmiðlanefnd að útgáfufélagið vilji með engum hætti fara gegn lögum um fjölmiðla og að ritstjóri þiggi gjarnan leiðsögn nefndarinnar telji fjölmiðlanefnd að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna.

Í ljósi þeirra viðbragða og þess að um er að ræða fyrsta brot félagsins gegn lögum um fjölmiðla ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Ákvörðun 5/2016