Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með birtingu áfengisauglýsingar frá Golfklúbbi GKG í 17. tbl. Garðapóstsins þann 26. maí 2016, þar sem auglýstur var bjór með vörumerkinu Stella Artois, hafi Valdimar Tryggvi Kristófersson, útgefandi Garðapóstsins, brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Í ljósi viðbragða útgefanda og með vísan til þess að þetta er fyrsta brot hans gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Fjölmiðlanefnd barst kvörtun þann 27. maí sl. þess efnis að á baksíðu Garðapóstsins sem út kom fimmtudaginn 26. maí sl. hafi verið að finna áfengisauglýsingu en Garðapóstinum er dreift frítt á öll heimili í Garðabæ. Nánar tiltekið var vísað til auglýsingar frá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) á baksíðu 17. tölublaðs, 27. árgangs Garðapóstsins. Auglýstur var bjór með vörumerkinu Stella Artois, í tengslum við golfmót hjá GKG, og birt heilsíðumynd af bjórflösku og bjórglasi merktu því vörumerki.

Fjölmiðlanefnd óskaði eftir sjónarmiðum útgefanda Garðapóstsins vegna málsins og bárust þau fjölmiðlanefnd með bréfi dags. 26. júní sl. Þar upplýsti útgefandi að mistök hafi átt sér stað og féllst á að með birtingu áðurnefndrar auglýsingar hafi verið brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Þá kom fram að ábyrgðarmaður Garðapóstsins myndi tryggja að frekari birting auglýsingarinnar og sambærilegra auglýsinga ætti sér ekki stað í fjölmiðlum á hans vegum.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að auglýsingin teldist til viðskiptaboða fyrir áfengan bjór með yfir 2,25% áfengisinnihaldi og að með birtingu hennar hafi Valdimar Tryggvi Kristófersson, útgefandi Garðapóstsins, brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Í ljósi viðbragða útgefandans og þess að þetta er fyrsta brot hans gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Ákvörðun nr. 6/2016