Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með sýningu kostunarstiklu þar sem vísað var til bjórs með vörumerkinu Egils Gull á RÚV 3. júní sl. hafi Ríkisútvarpið ohf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi og hafi verið um ítrekað brot að ræða. Að mati fjölmiðlanefndar var efnislegt innihald kostunartilkynningarinnar í meginatriðum hið sama og innihald auglýsingar á Egils Gulli sem fjallað var um í ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 2/2016 frá 11. mars 2016 og varðaði brot Ríkisútvarpsins gegn 4. mgr. 37. gr. Var Ríkisútvarpinu gert að greiða stjórnvaldssekt að upphæð 500.000 kr. vegna hins ítrekaða brots.

Málavextir voru þeir að fjölmiðlanefnd barst þann 31. maí 2016 kvörtun frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum þar sem kvartað var yfir ítrekuðum brotum Ríkisútvarpsins gegn 4. mgr. 37. gr. Vísað var til þess að Ríkisútvarpið hefði, þrátt fyrir ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 2/2016, haldið áfram að birta sams konar auglýsingu á Egils Gulli í dagskrá sinni og þannig hvorki virt stjórnvaldsákvarðanir né lögvarin réttindi barna og ungmenna til þess að vera laus við áfengisáróður, eins og það var orðað í kvörtuninni. Taldi kvartandi auglýsinguna hafa birst 24. maí 2016 um kl. 21:15.

Fjölmiðlanefnd óskaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum Ríkisútvarpsins vegna kvörtunarinnar og lagði Ríkisútvarpið fram afrit af auglýsingu þeirri sem Ríkisútvarpið taldi að kvörtunin vísaði til. Af því afriti mátti ráða að sú auglýsing væri ekki hin sama og sú sem fjallað var um í ákvörðun nefndarinnar nr. 2/2016. Óskaði fjölmiðlanefnd því eftir staðfestingu þess að nefndinni hafi borist rétt afrit í hendur og benti á að auglýsing sambærileg þeirri sem fjallað var um í ákvörðun 2/2016 virtist m.a. hafa verið sýnd eftir umræðuþátt forsetaframbjóðenda, Baráttan um Bessastaði, þann 3. júní sl.   

Í svörum Ríkisútvarpsins sem bárust nefndinni 23. júní sl. kom fram að mistök hafi átt sér stað hjá Ríkisútvarpinu og hafi gömul kostunarstikla, haldin sambærilegum annmörkum og auglýsing sú sem fundið var að í ákvörðun nr. 2/2016, óvart farið í birtingu, sem skrifist á mannleg mistök. Kostunarstikla frá Ölgerðinni, sem merkt sé heitinu „Golfari“ og hafi borist Ríkisútvarpinu 12. júní 2014, hafi verið sett í birtingu að beiðni fulltrúa Golfsambands Íslands, vegna samstarfs Ríkisútvarpsins og Golfsambandsins síðastliðið sumar.

Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar segir að kostunartilkynning frá Golfsambandinu, sem sýnd hafi verið í Ríkissjónvarpinu 24. maí og 3. júní 2016,* þar sem auglýstur var bjór með vörumerkinu Egils Gull, teljist til viðskiptaboða fyrir áfengi með yfir 2,25% áfengisinnihaldi. Efnislegt innihald kostunartilkynningarinnar sé í meginatriðum hið sama og þeirrar auglýsingar sem um var fjallað í ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 2/2016 en samkvæmt henni var Ríkisútvarpinu gert að greiða 250.000 kr. í stjórnvaldssekt vegna brots gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Því sé um að ræða ítrekað brot Ríkisútvarpsins gegn 4. mgr. 37. gr.

Var Ríkisútvarpinu gert að greiða sekt að upphæð 500.000 kr. en við ákvörðun sektarupphæðar var tekið mið af því að um ítrekað brot var að ræða, eðli brots og ávinnings af því.

Ákvörðun nr. 7/2016

*Athugasemd fjölmiðlanefndar

Eins og rakið er í ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 7/2016 sendi nefndin Ríkisútvarpinu frummat sitt vegna málsins þann 4. júlí sl. þar sem rakin voru tildrög máls, málsástæður beggja aðila og sú frumniðurstaða nefndarinnar að sýning áðurnefndrar kostunarstiklu hafi farið í bága við 4. mgr. 37. gr. Hafi Ríkisútvarpið þar með ítrekað brotið gegn ákvæðinu, með vísan til fyrra brots, sbr. ákvörðun nr. 2/2016. Fram kom að fjölmiðlanefnd vildi veita Ríkisútvarpinu færi á því að koma á framfæri frekari sjónarmiðum í málinu. Bent var á að niðurstaða erindisins fæli í sér frummat fjölmiðlanefndar en ekki endanlega afstöðu hennar til þess hvort Ríkisútvarpið hafi brotið gegn framangreindum lagaákvæðum. Þær ályktanir sem settar væru fram kynnu að breytast gæfu athugasemdir og skýringar Ríkisútvarpsins tilefni til þess. Í erindi fjölmiðlanefndar var alls fimm sinnum vísað til þess að áðurnefnd kostunarstikla hafi verið sýnd á RÚV dagana 24. maí og 3. júní.

Í svari Ríkisútvarpsins sem barst nefndinni 22. júlí sl. voru engar athugasemdir gerðar við þær dagsetningar sem vísað var til í frummati nefndarinnar. Eftir að ákvörðun fjölmiðlanefndar hafði verið birt Ríkisútvarpinu gerði félagið hins vegar athugasemdir við þær dagsetningar og kvað það rangt að kostunarstiklan hafi verið sýnd 24. maí. Hún hafi einungis verið sýnd þann 3. júní sl. Telji Ríkisútvarpið mikilvægt að koma þessu á framfæri þar sem af kafla 2.1. í ákvörðun fjölmiðlanefndar megi ráða að Ríkisútvarpið hafi þrætt fyrir að umrædd viðskiptaboð hafi verið sýnd 24. maí en annað hafi síðar komið á daginn. Svo sé ekki, heldur hafi önnur kostunarstikla með vísan í Egils Gull verið sýnd þann dag og hafi Ríkisútvarpið því að sönnu sent fjölmiðlanefnd rétta útgáfu á fyrstu stigum málsins.