Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar tekur þátt í umræðum og stýrir málstofu um hlutverk og skyldur almannaþjónustufjölmiðla á ráðstefnu í Prag 10. – 11. nóvember 2016

Þann 10. og 11. nóvember verður haldinn ráðstefna um almannaþjónustufjölmiðla í Prag á vegum EBU (European Broadcasting Union), tékkneska ríkisútvarpsins og Evrópuráðsins. Ástæða þess að ákveðið var að halda slíka ráðstefnu nú er að í mörgum ríkjum Evrópu má sjá afar neikvæða þróun hvað varðar afskipti stjórnvalda gagnvart fjölmiðlum og þá sérstaklega almannaþjónustufjölmiðlum. Má í þessu sambandi nefna nýleg dæmi frá Ungverjalandi, Póllandi og Króatíu. Þá hefur þróunin ekki verið til fyrirmyndar í ýmsum öðrum ríkjum Evrópu. Á ráðstefnunni verður rætt um mikilvægi faglegra og sjálfstæðra almannaþjónustufjölmiðla fyrir lýðræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar  og formaður Stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og nýja miðla, stýrir bæði málstofu og talar sem sérfræðingur á ráðstefnunni. Elfa Ýr stýrir umræðum um hvernig hægt er að tryggja almannaþjónustufjölmiðlum fjárhagslegt, stjórnunarlegt og ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þá talar hún sem sérfræðingur í málstofu um hlutverk og skyldur almannaþjónustumiðla og áhrif þeirra á samfélagið.

Þess má geta að Herdís Þorgeirsdóttir, varaformaður Feneyjanefndar Evrópuráðsins, tekur þátt í umræðum um ábyrgð þjóðþinga, eftirlitsstofnana og almannaþjónustufjölmiðla og dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins í málum er varðar hatursorðræðu.

Nánar um ráðstefnuna á: https://www.ebu.ch/files/live/sites/ebu/files/Events/DG%20Office/Programme.pdf