Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, tekur þátt í ráðstefnunni Global Internet and Jurisdiction í París 14. – 16. nóvember 2016.

Á ráðstefnunni verður fjallað um þau tækifæri og þær ógnir sem felast í því að internetið er alþjóðlegt og afmarkast ekki við landamæri einstakra ríkja. Internetið á sér engin landamæri og sífellt verður erfiðara að eiga við ýmis konar áskoranir sem koma upp í lögsögu ólíkra ríkja. Skapast hefur spenna við beitingu landslaga í sumum tilfellum, þar sem löggjöf getur verið ólík milli ríkja og stjórnvöld bregðast við með ólíkum hætti. Stjórnvöld margra ríkja reyna einnig að fylgjast með gögnum sem fara inn í þeirra lögsögu. Það kallar síðan á spurningar um friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi og frelsi til upplýsinga.

Þátttakendur á ráðstefnunni verða fulltrúar fyrirtækja, fulltrúar frjálsra félagasamtaka, stjórnmálamenn, embættismenn, tæknifólk og sérfræðingar úr háskólasamfélaginu. Á meðal þeirra sem ræða þessi brýnu mál verða Carl Bildt, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, Nicklas Lundblad, aðstoðarforstjóri Google, Douglas Frantz, aðstoðarframkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), Frank La Rue, yfirmaður samskipta- og upplýsingamála UNESCO og Nnenna Nwakanma, tengiliður Afríku hjá World Wide Web Foundation.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar og formaður Stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og nýja miðla, tekur þátt í umræðum á ráðstefnunni þar sem litið verður til framtíðar, rætt um brýnustu úrlausnarefnin og skoðaðar færar leiðir.

Nánar um ráðstefnuna: http://conference.internetjurisdiction.net/