Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með kostun á dagskrárliðunum Árið er – Upprifjun á Eurovision, Popp og rokksögu Íslands, Vikunni með Gísla Marteini, Hraðfréttum, Útsvari, Óskalögum þjóðarinnar og Íþróttalífinu hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið.

Málavextir voru þeir að fjölmiðlanefnd barst kvörtun frá 365 miðlum í ágúst 2016 þar sem fram kom að 365 miðlar teldu Ríkisútvarpið hafa brotið gegn ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið með kostun á fimm dagskrárliðum; Árið er – upprifjun á Eurovision, Popp og rokksögu Íslands, Vikunni með Gísla Marteini, Hraðfréttum og Íþróttalífinu, sem sýndir voru á RÚV. Áður, eða í nóvember 2014, hafði fjölmiðlanefnd borist sambærileg kvörtun 365 miðla vegna kostunar á þremur dagskrárliðum RÚV; Hraðfréttum, Útsvari og Óskalögum þjóðarinnar.

Skv. undantekningu frá meginreglu 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið er RÚV einungis heimilt að kosta íburðarmikla dagskrárliði og útsendingar innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá. Ríkisútvarpinu er lögum samkvæmt sjálfu falið að setja reglur um birtingu viðskiptaboða og kostun dagskrárefnis og skulu þær birtar á vef Ríkisútvarpsins. Fjölmiðlanefnd óskaði eftir sjónarmiðum Ríkisútvarpsins í kjölfar beggja kvartana og eru samskipti nefndarinnar og Ríkisútvarpsins rakin í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Við meðferð málsins, og í kjölfar athugasemda fjölmiðlanefndar, gerði Ríkisútvarpið grundvallarbreytingar á skilmálum RÚV um auglýsingar sem fela í sér töluverða tekjuskerðingu fyrir félagið, miðað við fyrri framkvæmd. Hafa nýjar AUGLÝSINGAREGLUR RÚV nú verið birtar á vef Ríkisútvarpsins.

Í ljósi þessa hefur fjölmiðlanefnd ákveðið að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Ákvörðun 1/2017