Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kostað efni í þáttunum „Atvinnulífið“ og „Allt er nú til“, sem sýndir voru á Hringbraut og aðgengilegir eru á Hringbraut.is, hafi ekki verið skýrt afmarkað frá ritstjórnarefni og hafi því verið um dulin viðskiptaboð að ræða. Þá var það einnig niðurstaða fjölmiðlanefndar að Hringbraut hafi brotið gegn reglum um hlutfall auglýsinga innan hverrar klukkustundar.

Málið hófst með  bréfi fjölmiðlanefndar þann 24. maí 2016, þar sem óskað var eftir sjónarmiðum og  upplýsingum Hringbrautar um áðurnefnda þætti. Í bréfinu var vakin athygli á reglum um viðskiptaboð, sem kveðið er á um í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, og vísað í leiðbeiningar fjölmiðlanefndar um bann við duldum viðskiptaboðum og kostun og vöruinnsetningu í hljóð- og myndefni sem birtar voru á vef fjölmiðlanefndar þann 16. desember 2015. Fram kom að óheimilt er að miðla kynningum sem þjóna auglýsingamarkmiðum, ef þeim er miðlað gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi og ef þær eru til þess fallnar að geta villt um fyrir neytendum með þeim hætti að þeir átti sig ekki á því að um keypta umfjöllun er að ræða. Óskaði fjölmiðlanefnd eftir upplýsingum um það hvort þáttunum Atvinnulífið og Allt er nú til, hefði verið miðlað gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi þeirra fyrirtækja og/eða aðila sem fjallað var um í þáttunum. Svör Hringbrautar og sjónarmið eru rakin í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að umfjöllun í þáttunum Atvinnulífið og Allt er nú til teldist falla undir hugtakið viðskiptaboð og hafi Hringbraut brotið gegn 2. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla þar sem hlutfall auglýsinga innan hverrar klukkustundar hafi farið yfir leyfilegt 20% hámark í umræddum þáttaröðum. Þá var það einnig niðurstaða fjölmiðlanefndar að kostað efni í þáttunum hafi ekki verið skýrt afmarkað frá ritstjórnarefni, líkt og áskilnaður er um í 1. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Því hafi verið um dulin viðskiptaboð að ræða í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla og hafi Hringbraut brotið gegn 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla með miðlun þáttanna. Með vísan til þeirrar niðurstöðu var Hringbraut miðlun ehf. gert að greiða sekt að upphæð 250.000 kr. 

Ákvörðun 2/2017