Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með sýningu á kostunarstiklu fyrir Egils Gull, sem miðlað var á RÚV dagana 1., 2., 3., 4., 5., 6., 9., 10., 11., 13. og 19. júní 2016, hafi Ríkisútvarpið ohf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Að mati fjölmiðlanefndar var efnislegt innihald kostunarstiklunnar í meginatriðum hið sama og innihald viðskiptaboða fyrir Egils Gull sem fjallað var um í ákvörðun nr. 2/2016 frá 11. mars 2016 og í ákvörðun nr. 7/2016 frá 15. ágúst 2016 og varðaði brot Ríkisútvarpsins gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla.

Hefur Ríkisútvarpinu verið gert að greiða stjórnvaldssekt að upphæð 600.000 kr. Við ákvörðun sektar var tekið mið af því að um ítrekað brot var að ræða, eðli brots og ávinnings af því.

Þá er það jafnframt niðurstaða fjölmiðlanefndar að upplýsingagjöf Ríkisútvarpsins til fjölmiðlanefndar við meðferð máls þess er lyktaði með ákvörðun nr. 7/2016  hafi ekki verið fyllilega í samræmi við 1. mgr. 12. gr. laga um fjölmiðla um skyldu fjölmiðla til að veita fjölmiðlanefnd skriflegar upplýsingar vegna ætlaðra brota á lögunum. Fram kemur í ákvörðuninni að fjölmiðlanefnd telji þó ekki að upplýsingum hafi vísvitandi verið haldið frá nefndinni, enda hafi starfsmenn RÚV upplýst að viðskiptaboðin hafi farið í birtingu í framangreind skipti fyrir mannleg mistök. Af þeim sökum hafi fullnægjandi upplýsingar ekki verið veittar við meðferð máls þess er lyktaði með ákvörðun 7/2016.

Ákvörðun 3/2017