Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með sýningu auglýsingar þar sem vísað var til bjórs með vörumerkinu Egils Gull á Stöð 2 þann 23. maí 2016 hafi 365 miðlar hf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi. Að mati fjölmiðlanefndar var efnislegt innihald kostunartilkynningarinnar í meginatriðum hið sama og innihald auglýsingar á Egils Gulli sem fjallað var um í ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 2/2016 frá 11. mars 2016 og varðaði brot Ríkisútvarpsins gegn 4. mgr. 37. gr. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar hafði fjölmiðlanefnd tilkynnt 365 miðlum og öðrum hljóð- og myndmiðlum hér á landi um niðurstöðuna og að birting áðurnefndrar auglýsingar fæli að mati fjölmiðlanefndar í sér brot á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla.

Hefur 365 miðlum verið gert að greiða stjórnvaldssekt að upphæð 250.000 kr. vegna brotsins. Við ákvörðun sektar var tekið mið af eðli brots og ávinnings af því.

Ákvörðun 4/2017