Ný hvítbók var gefin út í Noregi þann 7. mars sl. þar sem lagðar eru til breytingar á ríkisstyrkjum til fjölmiðla. Lagðar eru til breytingar á núverandi styrkjakerfi, auk þess sem nýjar styrkjaleiðir eru kynntar í skýrslunni. Helstu nýmæli skýrslunnar eru að fjölmiðlar sem miðla fréttum og fréttatengdu efni verði tímabundið undanþegnir tryggingagjaldi.

Norska menningarmálaráðuneytið skipaði nefnd í september 2015 með það að markmiði að koma með tillögur um hvernig hægt verði að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og hvernig norskum ríkisstyrkjum til fjölmiðla verði sem best varið. Þann 7. mars 2017 var gefin út hvítbókin „Det norske mediemangfoldet. En styrket mediepolitikk for borgerne“. Þar eru lagðar til umtalsverðar breytingar á núverandi styrkjakerfi auk þess sem lagðar eru til nýjar leiðir til að styrkja norska fjölmiðla.

Á síðasta ári var ákveðið að norsk dagblöð og netmiðlar yrðu undanþegnir virðisaukaskatti til að styrkja fjárhagslega stöðu þeirra. Í skýrslunni er lagt til að fleiri tegundir fjölmiðla verðir undanþegnar slíkum skatti. Þá er lagt til að landsbyggðarmiðlar verðir styrktir sérstaklega. Helstu nýmæli skýrslunnar eru að fjölmiðlar sem miðla fréttum og fréttatengdu efni verði tímabundið undanþegnir tryggingagjaldi.

Í nefndinni sátu nokkrir af forstjórum stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna, ritstjórar dagblaða, forstjóri norska ríkisfjölmiðilsins NRK og sérfræðingar í fjölmiðlun, auk prófessors í fjölmiðlafræði.

Grunninn að því að lagt var af stað í þessu vinnu má rekja til þess að í 100 gr. norsku stjórnarskrárinnar segir að hið opinbera skuli stuðla að upplýstri og almennri umræðu í þjóðfélaginu. Þetta ákvæði hefur verið túlkað með þeim hætti að ríkið beri ábyrgð á því að tryggja fjölbreytta fjölmiðlun í norsku samfélagi sem er vettvangurinn fyrir miðlun upplýsinga og skoðanaskipti. Það er því á ábyrgð hins opinbera að tryggja fjölbreytni og gæði norskra fjölmiðla. Ríkisstyrkir til fjölmiðla byggja á þeirri hugmyndafræði að fjölbreyttir, sjálfstæðir og gagnrýnir fjölmiðlar, sem flytja fréttir og þar sem stunduð er rannsóknarblaðamennska, séu grunnurinn að virku lýðræði og tjáningarfrelsi í landinu. Í Noregi hafa fjölmiðlar fengið ríkisstyrki frá árinu 1969.

Í Noregi geta fjölmiðlar fengið rekstrarstyrki ef þeir miðla fréttum og fréttatengdu efni. Þá eru sérstakir styrkir fyrir vikublöð, styrkir fyrir dagblöð samíska minnihlutans í Noregi, styrkir fyrir fjölmiðla sem miðla efni á minnihlutatungumálum, auk styrkja til svæðisútvarps.

Helstu tillögur í hvítbókinni

Norska ríkisútvarpið – NRK
Í hvítbókinni er fjallað um mikilvægt hlutverk ríkisútvarpsins NRK hvað varðar menningar- og lýðræðishlutverk félagsins í norsku samfélagi. Telur nefndin að mikilvægt sé að breyta eignarhaldinu á NRK og gera opinbera hlutafélagið að sjálfseignarstofnun. Slíkt fyrirkomulag tryggir betur sjálfstæði NRK að mati nefndarinnar.

Einkarekið útvarp
Einkareknar útvarpsstöðvar hafa mikla þýðingu fyrir norskt menningarlíf, auk þeirrar þýðingar sem þær hafa fyrir tjáningar- og upplýsingafrelsi í landinu. Í skýrslunni kemur fram að erfitt geti reynst að fjármagna fréttir og fréttatengt efni og svæðisbundna fréttamennsku til framtíðar. Lagt er til að styrkja einkareknar sjónvarpsstöðvar, sem bjóða upp á slíkt efni, með einhverjum hætti. Ennfremur er lagt til að styrkja eina landsdekkandi hljóðvarpsstöð sem fengi ríkari almannaþjónustuskyldur og sem hefði höfuðstöðvar sínar utan höfuðborgarinnar.

Virðisaukaskattur
Á árinu 2016 var ákveðið að fréttamiðlar á netinu væru undanþegnir virðisaukaskatti, líkt og prentmiðlar. Í skýrslunni er lagt til að undanþágan verði einni
g látin gilda fyrir aðra fjölmiðla sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Lagt er til að undanþágan gildi jafnframt um sölu á stökum greinum.

Undanþága frá tryggingagjaldi
Helstu nýmæli skýrslunnar er að lagt er til að fjölmiðlar, sem að meginstefnu bjóða fréttaefni, verði undanþegnir tryggingagjaldi. Lagt er til að þessi undanþága verði til fjögurra ára. Tillagan er sett fram í ljósi þess að fjölmiðlar með ritstjórn munu á næstu árum 
þurfa aukna styrki vegna mikilla tæknibreytinga. Telur nefndin að undanþága frá tryggingagjaldi yrði tiltölulega auðveld í framkvæmd og skapaði fjarlægð frá stjórnvöldum og hugsanlegum pólitískum afskiptum.

Beinir ríkisstyrkir
Beinir ríkisstyrkir eru ætlaðir tilteknum fjölmiðlum á markaði til að laga undirliggjandi markaðsskekkju. Nefndin telur að beinir ríkisstyrkir hafi stuðlað að því að í Noregi sé enn fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og hafi styrkirnir sérstaklega haft þýðingu við að styrkja svæðisbundna fjölmiðla. Breytingarnar sem gerðar voru á ríkisstyrkjunum á árinu 2014 hafa leitt til þess að styrkirnir taka nú tillit til þeirra tæknibreytinga sem orðið hafa á undanförnum árum. Nefndin leggur þó til breytingar á beinum rekstrarstyrkjum til fjölmiðla. Meðal annars er lagt til að reglurnar verði einfaldaðar og að þær verði fyrirsjáanlegri. Þá eru lagðir til nýir ríkisstyrkir, m.a. til að þróa nýjungar innan fjölmiðlunar og til að styrkja blaðamennsku sem talin er mikilvæg fyrir samfélagið.

Annað
Nefndin leggur áherslu á að stefnumótun um fjölmiðla sé nátengd öðrum þáttum stefnumótunar. Þannig sé hægt að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlum á öðrum sviðum stefnumótunar.  Tillögur sem nefndin setur fram eru m.a. stefnumótun um bókasafns- og upplýsingatækni, kvikmyndagerð, skóla- og vísindamál og um skattalöggjöf sem myndi styrkja fjölmiðla. 

Hvítbókin „Det norske mediemangfoldet