Þann 25. maí 2016 samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögur að endurbótum á hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB. Endurbótunum er ætlað að færa evrópska sjónvarpslöggjöf inn í 21. öldina og laga hana að breyttum veruleika.

Reglur um fjölmiðla hafa töluverð áhrif á líf almennings og auðvitað á starfsemi fjölmiðlanna sjálfra. Hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB gildir um hljóð- og myndmiðla á EES-svæðinu en með „hljóð- og myndmiðlum“ er átt við línulega dagskrá í sjónvarpi og myndmiðla sem miðla efni eftir pöntun. Ákvæði tilskipunarinnar eru lágmarksreglur, sem aðildarríkjum EES ber að innleiða í landslög á grundvelli EES-samningsins. Aðildarríkjum er þó heimilt að setja strangari reglur í sinni löggjöf. Hér á landi var fyrsta sjónvarpstilskipun ESB innleidd þegar Ísland varð aðili að EES-samningnum. Núverandi hljóð- og myndmiðlunartilskipun var innleidd með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 en íslensku lögin gilda um allar tegundir fjölmiðla.

Brugðist við tæknibreytingum og breyttri notkun á fjölmiðlum

Breytingar á hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB voru síðast gerðar árið 2010. Tillögur framkvæmdastjórnar ESB að endurbótum á sjónvarpslöggjöfinni nú bera þess merki að notkun almennings á fjölmiðlum hefur breyst umtalsvert, auk þess sem tækninni hefur fleygt fram. Yngri kynslóðin horfir minna á sjónvarp en þær eldri og nálgast myndefni í auknum mæli í gegnum deilisíður á netinu, á borð við Youtube, í tölvum, símum og spjaldtölvum. Tillögurnar endurspegla einnig að hatursorðræða á netinu er vaxandi vandamál en hún birtist m.a. í athugasemdakerfum fjölmiðla og á deilisíðum á netinu.

Youtube heyri undir gildissviðið

Við þessu vill framkvæmdastjórn ESB bregðast. Því er í drögum að nýrri tilskipun lagt til að gildissvið tilskipunarinnar verði víkkað, annars vegar varðandi vernd barna gegn skaðlegu efni og hins vegar varðandi hatursorðræðu. Lagt er til að reglur um vernd barna gegn skaðlegu efni taki einnig til deilisíðna (e. video sharing platforms) á netinu. Þá  er lagt til að reglur um hatursorðræðu gildi einnig um deilisíður á netinu. Hér á landi myndi þetta meðal annars þýða að eftirlit með hatursorðræðu á deilisíðum, svo og eftirlit með vernd barna gegn skaðlegu efni á deilisíðum, myndi færast í hendur fjölmiðlanefndar. Þetta er þó ekki jafneinfalt og það hljómar. Ekki hefur til dæmis náðst samstaða um það ennþá á Evrópuþinginu eða hjá Ráðinu hvernig eigi að skilgreina hugtakið „deilisíða“ eða „video sharing platform“ nákvæmlega eða hvernig lögsaga yfir slíkum síðum verði ákvörðuð.

Slakað á reglum um viðskiptaboð í sjónvarpi

Eitt markmiðið með tillögum framkvæmdastjórnarinnar er að losa um þær reglur sem gilda um viðskiptaboð í sjónvarpi, til að styrkja hefðbundið sjónvarp í sessi í samkeppninni við samfélagsmiðla, myndmiðla sem miðla efni eftir pöntun og aðrar tegundir miðla. Verði tillögurnar samþykktar verður slakað á þeim kröfum sem gerðar eru um 20% auglýsingahlutfall innan klukkustundar í sjónvarpi og fjölmiðlaveitum veitt meira svigrúm varðandi sýningartíma. Einnig munu fjölmiðlar fá meira svigrúm til að bjóða upp á vöruinnsetningar og kostanir.

Hertar og einfaldaðar reglur um vernd barna í sjónvarpi

Lágmarksreglur tilskipunarinnar um vernd barna gegn skaðlegu myndefni í sjónvarpi verða hvort tveggja hertar og einfaldaðar. Fjölmiðlum verður skylt að takmarka aðgang barna að öllu sem getur talist skaðlegt myndefni og læsa verður aðgangi að skaðlegasta efninu með PIN númerum eða sambærilegum tæknilegum hætti. Sömu reglur gilda um myndmiðla sem miðla efni eftir pöntun, verði tillögurnar samþykktar.

Þá ganga tillögur framkvæmdastjórnar ESB út á að efla sjálfstæði eftirlitsstofnana, m.a. frá stjórnvöldum. Einnig stendur til að einfalda reglur um ákvörðun lögsögu ríkja og efla samstarf þeirra í þeim efnum.

Tillögurnar eru nú til meðferðar hjá Evrópuþinginu og Ráðinu og standa vonir til þess að pólitísku samkomulagi verði náð fyrir lok ársins 2017. Að því loknu hafa aðildarríkin tvö ár til að innleiða tilskipunina. Ísland mun jafnframt innleiða nýju tilskipunina þegar hún hefur verið samþykkt innan EES.  

Fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar frá 25. maí 2016 má finna hér.

Drög að hinni nýju Evróputilskipun um hljóð- og myndmiðla má finna hér.

Ítarlegri upplýsingar um efnisákvæði tilskipunarinnar er svo að finna á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

 

 

 

 

 

 
Myndefni frá framkvæmdastjórn ESB vegna kynningar á drögum að nýrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun.