Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að október-, nóvember- og desemberhefti Glamour 2016 hafi innihaldið áfengisauglýsingar og hafi 365 miðlar með miðlun þeirra brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Málavextir voru þeir að þann 6. september 2016 barst fjölmiðlanefnd tilkynning frá lögmanni 365 miðla þess efnis að 365 miðlar hafi hætt útgáfu tímaritsins Glamour. Ekki kom fram í tilkynningunni að til stæði að halda útgáfu Glamour áfram hér á landi og var það jafnframt skilningur fjölmiðlanefndar að áformað væri að hætta útgáfu tímaritsins Glamour hér á landi.

Eftir að ljóst var að útgáfu blaðsins hér á landi hafði hvergi nærri verið hætt og að 365 miðlar hefðu m.a. sent áskriftartilboð til sex mánaða vegna Glamour, undirritað af 365 miðlum, á póstlista tímaritsins þann 7. október 2016 kallaði fjölmiðlanefnd eftir frekari skýringum frá 365 miðlum. Í svörum 365 miðla við því erindi sagði að tímaritið Glamour væri nú gefið út af erlendum aðila. Af svari 365 miðla mátti ráða að 365 miðlar teldu útgáfu tímaritsins Glamour ekki lengur falla undir lögsögu íslenska ríkisins og jafnframt að 365 miðlar teldu það ekki vera á sínu forræði að svara spurningum fjölmiðlanefndar eða veita nefndinni upplýsingar um nýjan útgefanda.

Í október-, nóvember- og desemberhefti Glamour 2016 kemur fram að hinn erlendi aðili, sem 365 miðlar vísuðu til í svörum sínum, sé breska félagið 365 Media Europe Ltd. Í þessum sömu þremur tölublöðum birtust alls fimm heilsíðuauglýsingar á áfengi, ein í októberheftinu, tvær í nóvemberheftinu og tvær í desemberheftinu.

Í bréfi fjölmiðlanefndar frá 13. desember 2016 var 365 miðlum greint frá því mati nefndarinnar að ekki væru efni til að fallast á sjónarmið 365 miðla um að starfsemi og útgáfa tímaritsins Glamour félli ekki lengur undir gildissvið laga um fjölmiðla. Tímaritið væri, þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hefðu verið á útgáfufélagi þess, fjölmiðill sem félli undir gildissvið laga um fjölmiðla og væri því enn skráningarskyldur hjá fjölmiðlanefnd. Efni tímaritsins og útgáfa lyti ákvæðum laga um fjölmiðla, auk þess sem önnur ákvæði íslenskra laga giltu um fjölmiðilinn, eins og aðra fjölmiðla með staðfestu hér á landi. Mætti þar nefna ákvæði um meiðyrði, höfundarétt, persónuvernd og friðhelgi einkalífs, sem og áfengislög.

Í bréfinu óskaði fjölmiðlanefnd eftir upplýsingum um eignarhald útgáfufélagsins 365 Media Europe Ltd., sem og staðfestingu 365 miðla þess efnis að hið íslenska félag gangist við ábyrgð sinni á útgáfu Glamour, sem 365 miðlar starfræki á Íslandi, sem ætlað sé almenningi hér á landi og sem heyri því undir íslenska lögsögu í skilningi laga um fjölmiðla.

Svör 365 miðla við erindum fjölmiðlanefndar bárust með bréfum dags. 18. janúar, 2. mars og 10. apríl 2017 og er efni þeirra rakið í ákvörðun nefndarinnar.  

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að 365 miðlar starfræki fjölmiðilinn Glamour hér á landi, í skilningi 15. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla, og teljist því sú fjölmiðlaveita sem ábyrgð ber á birtingu áðurnefndra áfengisauglýsinga. Var það mat nefndarinnar að tilvísun til breska félagsins 365 Media Europe Ltd. í tímaritinu virtist hafa þann eina tilgang að komast undan íslenskri lögsögu. Um þá niðurstöðu vísaði nefndin m.a. til íslensks efnis tímaritsins, dreifingar þess á Íslandi og staðsetningu ritstjórnar, tilvísaðra upplýsinga í samrunatilkynningu vegna samruna Fjarskipta hf. og 365 miðla hf., náinna tengsla 365 miðla hf. og 365 Media Europe Ltd., markaðssetningar á Glamour sem 365 miðlar standa fyrir, áskriftartilboða merktum vörumerki hins íslenska félags og starfrækslu vefútgáfu Glamour undir merkjum Vísis.

Þá var það niðurstaða fjölmiðlanefndar að október-, nóvember- og desemberhefti Glamour 2016 hafi innihaldið viðskiptaboð fyrir áfengi með yfir 2,25% áfengisinnhaldi og hafi 365 miðlar með miðlun þeirra brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.  

Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla leggur fjölmiðlanefnd stjórnvaldssektir á fjölmiðlaveitur sé brotið gegn ákvæðum VI. kafla um viðskiptaboð og fjarkaup. Við ákvörðun sektar skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots og tekna fjölmiðlaveitna af broti þegar það á við. Með vísan til niðurstöðu sinnar ákvað fjölmiðlanefnd að leggja sekt á 365 miðla og taldi hæfilegt að sektin nymi 1.000.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið tillit til þess að brotið var ítrekað, eða fimm sinnum, gegn 4. mgr. 37. gr. laganna og ætlaðs ávinnings af því.

Ákvörðun 5/2017