Nokkur kynslóðamunur er á notkun fjölmiðla í Danmörku og fer kynslóðabilið stækkandi að þessu leyti. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem systurstofnun fjölmiðlanefndar, Slots- og Kulturstyrelsen, birti í dag. Í henni kemur einnig fram að hlutur vefmiðla á auglýsingamarkaði stækkar stöðugt og stór hluti auglýsingafjár rennur úr landi til erlendra netfyrirtækja.

Rannsóknin leiddi í ljós að kynslóðabilið er stærst þegar kemur að notkun hefðbundinna fjölmiðla, sér í lagi prentmiðla og sjónvarps. Danir horfðu 43 mínútum skemur á sjónvarp árið 2016 en þeir gerðu árið 2010 og yngri kynslóðir horfðu umtalsvert minna á sjónvarp en þær eldri. Dönsk börn á aldrinum 12-18 ára horfðu á sjónvarp í um 49 mínútur á dag árið 2016 eða 87 mínútum skemur en árið 2010. Sjónvarpsnotkun aldursflokksins 55-70 ára minnkaði aftur á móti einungis um 2 mínútur á sama tímabili en Danir á aldrinum 55-70 ára horfðu á sjónvarp í tæplega fjóra tíma á dag árið 2016.

Danska þjóðin nýtir sér netið til að nálgast fjölmiðlaaefni í meira mæli en áður og notkun snjalltækja fer vaxandi. Um 85% Dana fara daglega á netið og 65% netheimsókna fara fram í gegnum snjalltæki. Fjöldi þeirra sem nota snjalltæki til að fara á netið hefur meira en tvöfaldast á síðustu fimm árum. Allir aldurshópar eiga það sameiginlegt að notkun á samfélagsmiðlum, fréttasíðum á netinu og streymisþjónustu færist í aukana.

Í skýrslunni kemur einnig fram að vefmiðlar sækja mjög í sig veðrið á auglýsingamarkaði. Eins og margir þekkja er birtingafé það fé sem fyrirtæki verja til auglýsinga á ári hverju. Meira en helmingi alls birtingafjár í Danmörku 2016 var varið í netauglýsingar sem beint var að dönskum neytendum.  Þar af runnu 56,5% dansks birtingafjár á netinu til erlendra fyrirtækja, eins og Facebook og Google, en þetta hlutfall var 55,2% árið 2015. 

Dönsku rannsóknina má lesa hér: