Framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar stýrir pallborði á alþjóðlegri ráðstefnu þann 19. júní næstkomandi um hlutverk fjölmiðla á tímum hryðjuverkaógnar. Ráðstefnan er ætluð blaða- og fréttamönnum og hagsmunaaðilum, svo sem fjölmiðlanefndum, siðanefndum blaðamanna, almenningi, fræðimönnum og fleirum.

Á ráðstefnunni verður fjallað um þær áskoranir sem blaða- og fréttamenn standa frammi fyrir þegar fjallað er um hryðjuverk sem framin hafa verið. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur skapast þrýstingur á að upplýsingar og fréttir séu birtar sem fyrst. Það hefur leitt til þess að birst hafa rangar upplýsingar, þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar hafa ekki komið fram að hálfu lögreglu eða annarra yfirvalda. Þá þurfa fjölmiðlar að gæta þess að verða ekki áróðurstæki fyrir þá hryðjuverkamenn sem reyna að koma sínum málstað á framfæri.

Á ráðstefnunni verður fjallað um siðareglur blaðamanna og löggjöf er varðar lýðræðislegar grundvallarreglur. Spurt verður hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á slíkum reglum í ljósi þeirrar reynslu sem mörg ríki hafa nú þegar af hryðjuverkum. Rætt verður um það hvernig siðanefndir blaðamanna og fjölmiðlanefndir í Evrópu hafi tekið á kvörtunum vegna fréttaflutnings af slíkum atvikum. 

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, stýrir pallborði þar sem fjallað verður um siðareglur og löggjöf um lýðræðislegar grundvallarreglur. Þar verður fjallað um reynslu siðanefnda og fjölmiðlanefnda í Evrópu og reynslu þeirra af fréttaflutningi af hryðjuverkum. Í pallborðinu sitja sérfræðingur frá Ofcom, breska fjölmiðlaeftirlitinu, og CSA, franska fjölmiðlaeftirlitinu. Báðar þessar þjóðir hafa ítrekað orðið fyrir hryðjuverkaárásum og verður rætt um hvað mætti betur fara og hvaða áskoranir fjölmiðlarnir sjálfir og eftirlitsstofnanirnar standa frammi fyrir við þessar aðstæður. Í pallborði er jafnframt prófessor Emeritus við Sorbonne háskóla, ásamt formanni svissneskrar siðanefndar blaðamanna. 

Ráðstefnan verður haldin í Strassborg, mánudaginn 19. júní næstkomandi. 

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna hér.