Fjölmiðlanefnd hefur tekið saman upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla árið 2016 en þetta er í þriðja skipti sem nefndin birtir slíka samantekt. Niðurstöðurnar sýna að íslenskir auglýsendur og birtingahús auglýstu fyrst og fremst í innlendum fjölmiðlum árið 2016. Prentmiðlar voru sem fyrr stærstir á auglýsingamarkaði og sjónvarpsmiðlar hlutu næststærstan hlut auglýsingafjár. Innlendir vefmiðlar skutust upp fyrir útvarp í fyrsta skipti og voru þriðji vinsælasti auglýsingavettvangurinn hér á landi árið 2016.

1. Tilhögun og framkvæmd samantektar

Upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli ólíkra fjölmiðla geta gefið mikilvægar vísbendingar um stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði en birtingafé er það fé sem fyrirtæki verja til auglýsinga í fjölmiðlum. Þetta er í þriðja skipti sem fjölmiðlanefnd tekur saman upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla á Íslandi. Niðurstöður fyrir árið 2014 voru birtar á vef fjölmiðlanefndar í september 2015, auk þess sem niðurstöður fyrir árið 2015 og 2014 eru aðgengilegar í ársskýrslu fjölmiðlanefndar 2015, sem finna má á vef nefndarinnar, www.fjolmidlanefnd.is. Tölur voru sem fyrr fengnar frá fimm stærstu birtingahúsum landsins: ABS fjölmiðlahúsi, Birtingahúsinu, MediaCom, H:N Markaðssamskiptum og Ratsjá Media (Ratsjá og Pipar-TBWA.) Upplýsingar um auglýsingar sem keyptar voru milliliðalaust af fjölmiðlunum sjálfum lágu ekki fyrir þegar skýrsla þessi var rituð og eru því ekki inni í heildarniðurstöðum.

2.  Niðurstöður

Niðurstaða samantektar fjölmiðlanefndar var sú að árið 2016 keyptu fimm stærstu birtingahúsin á Íslandi auglýsingar fyrir rúma fimm milljarða króna eða alls 5.512.108.040 kr. sem var 6,3% aukning frá fyrra ári á föstu verðlagi. Talið er að birtingahús kaupi um helming auglýsinga á markaði.

Prentmiðlar, þ.e. dagblöð, tímarit, landsmálablöð o.fl. hlutu áfram stærstan hluta auglýsingatekna hér á landi árið 2016 eða 30,4%, sé eingöngu litið til auglýsinga sem keyptar voru beint af birtingahúsum. Hlutur prentmiðla minnkaði um 3,6 prósentustig frá fyrra ári, var 34% árið 2015 og hefur minnkað um alls sjö prósentustig frá árinu 2014 þegar hlutur þeirra var 37,4%.

Sjónvarp, þar með taldar leiknar auglýsingar í sjónvarpi, skjámyndir, kostanir o.fl., fylgdi sem fyrr í kjölfar prentmiðla með 28,5% hlut af birtingafé 2016 en bar 28,2% hlut úr býtum árið 2015 og 29,7% hlut árið 2014. Hlutur sjónvarps lækkaði þannig lítillega frá fyrra ári en sú lækkun telst innan vikmarka.

Innlendir vefmiðlar bæta enn við sig

Hlutur útvarps hélst nánast sá sami á milli ára, var 16,6% árið 2016. Innlendir vefmiðlar héldu áfram að bæta við sig og mældust með 16,7% hlut af birtingafé 2016 en voru með 15,2% hlut árið 2015. Frá árinu 2014 hefur hlutur innlendra vefmiðla af auglýsingum sem keyptar eru beint af birtingahúsum hækkað um 4,3 prósentustig.

Erlendir vefmiðlar, þar með taldir samfélagsmiðlar, virðast hins vegar lítil áhrif hafa á íslenska auglýsingamarkaðinn enn sem komið er, a.m.k. ef litið er til birtingahúsanna sérstaklega, en erlendir vefmiðlar fengu einungis 3,6% birtingafjár í sinn skerf árið 2016. Undir flokkinn „annað“ falla síðan  auglýsingar í kvikmyndahúsum, á flettiskiltum o.fl. en 4,2% birtingafjár runnu í þann flokk árið 2016.

 

 

 

 

 

 

[Smella á mynd til að stækka.]

Skipting birtingafjár á vefnum

Þegar auglýsingar á vefmiðlum eru skoðaðar sérstaklega sést að hlutfallsleg skipting milli innlendra og erlendra vefmiðla hefur lítið sem ekkert breyst frá fyrra ári, þegar skiptingin var 17,8% / 82,2%, innlendum vefmiðlum í hag.  

 

 Framangreindar niðurstöður sýna að íslenskur fjölmiðla- og auglýsingamarkaður er að mörgu leyti frábrugðinn mörkuðum annars staðar á Norðurlöndunum. Hér á landi hafa prentmiðlar sterkari stöðu á auglýsingamarkaði en í nágrannaríkjum á meðan nágrannar okkar á Norðurlöndum auglýsa mest í sjónvarpi og á netinu. Þá rennur einungis lítill hluti þess birtingafjár sem íslensk fyrirtæki verja í auglýsingar á netmiðlum til erlendra samfélagmiðla og leitarsíðna. Íslenskir auglýsendur og birtingahús virðast því halda tryggð við innlenda fjölmiðla og telja fé sínu best varið til auglýsinga í þeim.