Árið 2016 lét fjölmiðlanefnd gera tvær greiningar á annars vegar viðhorfi almennings til hlutlægni í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, á öllum miðlum þess, og hins vegar á fréttaumfjöllun Ríkisútvarpsins í aðdraganda Alþingiskosninga 2016.

Greiningarnar voru liður í eftirliti fjölmiðlanefndar með starfsemi Ríkisútvarpsins en samkvæmt 15. gr. laga um Ríkisútvarpið ber fjölmiðlanefnd að leggja árlegt mat á það hvort og hvernig Ríkisútvarpið hefur uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt.

Forsendur þess að fjölmiðlanefnd ákvað að ráðast í framangreindar greiningar voru þær að mennta- og menningarmálaráðuneytið ákvað í maí 2016 að veita fjölmiðlanefnd sérstaka fjárveitingu til að standa straum af kostnaði við fjölmiðlarannsóknir, með vísan til 10. gr. laga um fjölmiðla, 15. gr. laga um Ríkisútvarpið og VII. bráðabirgðaákvæðis við sömu lög. Voru fjölmiðlanefnd að öðru leyti gefnar frjálsar hendur varðandi framkvæmd og efni viðkomandi fjölmiðlarannsókna.

Þáttur í almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins er að sinna lýðræðislegum skyldum í aðdraganda kosninga, vera til fyrirmyndar í starfsháttum sínum, stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt.

Ríkisútvarpið kynnir framboð til almennra kosninga og gætir að því að gefa öllum jöfn tækifæri til þess að kynna stefnumál sín. Þessu sinnir Ríkisútvarpið í sérstakri kosningaumfjöllun sinni og hefur birt reglur þar að lútandi, sem fjölmiðlanefnd hefur samþykkt. Fjölmiðlanefnd vekur athygli á því að greining sú sem fjölmiðlanefnd lét Fjölmiðlavaktina/Creditinfo framkvæma í aðdraganda Alþingiskosninga 2016 tekur ekki til almennrar kosningaumfjöllunar Ríkisútvarpsins. Greiningin tekur einungis til frétta á öllum miðlum Ríkisútvarpsins á þessu tímabili. Greining Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo tekur m.ö.o ekki til umræðuþátta með leiðtogum stjórnmálaflokka, kjördæmafunda í útvarpi, málefnaþátta með fulltrúum stjórnmálaflokka eða annars konar almennrar kosningaumfjöllunar.

Ástæður þessa eru fyrst og fremst þær að greiningin takmarkaðist við þá þætti í dagskrá Ríkisútvarpsins sem Fjölmiðlavaktin/Creditinfo vaktar að staðaldri en almenn kosningaumfjöllun er ekki hluti af hefðbundinni vöktun hjá Fjölmiðlavaktinni/Creditinfo og voru ekki gerðar breytingar á því fyrirkomulagi fyrir Alþingiskosningarnar 2016.

Fréttir og fréttaumfjöllun lúta öðrum lögmálum en almenn kosningaumfjöllun. Fréttir ráðast eðli máls samkvæmt af fréttamati og atburðum líðandi stundar hverju sinni. Ríkisútvarpið hefur ríkar skyldur um gæði og fagleg vinnubrögð, á grundvelli sérlaga um Ríkisútvarpið. Hafa ber í huga að aðdragandi kosninga er sérstaklega viðkvæmur tími þar sem kjósendur eru að kynna sér menn og málefni og taka afstöðu til ólíkra framboða.

Nánar um rannsókn Gallup

Rannsókn Gallup á viðhorfi almennings til hlutlægni í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins tók til tímabilsins 23.-30 maí 2016 og fór fram með netkönnun sem framkvæmd var af Gallup. Engin sérstök ástæða lá að baki því að þetta tímabil varð fyrir valinu, önnur en sú að mennta- og menningarmálaráðuneytið ákvað í maí 2016 að veita sérstakri fjárveitingu til fjölmiðlarannsókna og var hafist handa við könnunina um leið og forsendur hennar höfðu verið ákveðnar og fjárveiting tryggð. 

Nánar um greiningu Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo

Greining Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo á fréttum Ríkisútvarpsins í aðdraganda kosninga var samanburðarrannsókn, sem tók til tímabilsins 16. október 2016 – 29. október 2016 annars vegar og 14. apríl 2013 – 27. apríl 2013 hins vegar, og var framkvæmd af Fjölmiðlavaktinni.

Tímabil greiningar var valið í samráði við Fjölmiðlavaktina/Creditinfo. Ákveðið var að hefja ekki mælingar fyrr en þingstörfum yrði að fullu lokið eða um miðjan október 2016. Talið var líklegt að umfjöllun tengd stjórnmálaflokkum og stjórnarandstöðu yrði fyrirferðarmeiri í fréttum, á meðan þing væri enn að störfum, en umfjöllun um nýja flokka. Hefðu mælingar hafist nokkrum vikum fyrr, þegar Alþingi var enn að störfum, hefðu niðurstöður þeirra að öllum líkindum gefið skekkta mynd að þessu leyti.

Talið var að tveggja vikna tímabil væri fullnægjandi til að hlutfallslegar niðurstöður yrðu marktækar. Að mati Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo hefði tímabilið þó vart mátt vera skemmra, til að lágmarksfjölda frétta innan tímabilsins yrði náð. Kostnaður við verkefnið miðaðist við fjölda frétta.

Af hverju eru niðurstöðurnar birtar nú?

Til stóð að fjölmiðlanefnd birti niðurstöður Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo og Gallup síðar á þessu ári, sem hluta af árlegu mati nefndarinnar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins. Matinu er ekki lokið, þar sem beðið er eftir frekari gögnum og sjónarmiðum Ríkisútvarpsins. Matið byggir á ársskýrslu RÚV en samkvæmt ákvæði 4.3 í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016-2019, skal Ríkisútvarpið jafnframt útbúa árlega greinargerð til fjölmiðlanefndar um hvernig Ríkisútvarpið stendur að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.  

Fjölmiðlanefnd hafa á síðustu dögum borist tvær beiðnir frá fjölmiðlum um að niðurstöður framangreindra fjölmiðlarannsókna verði afhentar. Fyrri beiðnin barst frá Fréttablaðinu 18. október sl. og seinni beiðnin frá Viðskiptablaðinu 19. október sl.

Með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og sjónarmiða um gagnsæi og jafnræði hefur nefndin ákveðið að birta niðurstöður greininga Gallup og Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo á vef sínum, fyrr en til stóð, til upplýsinga fyrir fjölmiðla og almenning. Áréttað er að ekki er um að ræða heildarmat nefndarinnar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins.

Könnun Gallup á viðhorfi almennings til hlutlægni í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins

Greining Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo á fréttaumfjöllun RÚV í aðdraganda Alþingiskosninga 2016