Breska fjölmiðlaeftirlitið Ofcom birti í haust niðurstöður rannsóknar sinnar á fjölbreytni og jafnrétti á meðal starfsmanna sem vinna við sjónvarp og þeirra sem sýnilegir eru í sjónvarpi.

Niðurstöðurnar voru meðal annars þær að að konur og fólk sem tilheyrir þjóðernislegum minnihlutahópum er í miklum minnihluta í hópi stjórnenda sjónvarpsmiðla. Það sama á við um fólk með fötlun, sem auk þess er í miklum minnihluta í öllum störfum innan þessa starfsgeira.

Þegar litið er til myndefnis í sjónvarpi, þar með talið leikins efnis, kemur í ljós að þjóðernislegum minnihlutahópum finnst dregin upp hlutlaus eða neikvæð mynd af þeim í sjónvarpi. Helmingur fatlaðra einstaklinga telur að fólk með fötlun sé ekki sýnilegt í sjónvarpi og helmingur aldraðra telur að myndmiðlar dragi upp neikvæða mynd af þeim aldurshópi, sér í lagi öldruðum konum.  

Fram kemur að ríkismiðillinn BBC hefur sett sér þau markmið að fyrir 2020 verði kynjahlutfall í hópi starfsmanna BBC orðið hnífjafnt, fólk með fötlun verði 8% starfsmanna, 8% starfsmanna verði sam- eða tvíkynhneigðir og 15% starfsmanna verði af svörtum eða asískum kynþætti eða tilheyri öðrum þjóðernislegum minnihlutahópi. Verða þessi markmið höfð til hliðsjónar við árlegt mat Ofcom á því hvort BBC hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt.

Rannsókn Ofcom er liður í aðgerðaráætlun sem miðar að því að auka fjölbreytni í fjölmiðlum. Ofcom hyggst vinna náið með fjölmiðlum til að ná því markmiði og verður sams konar rannsókn á stöðu mála í útvarpi birt síðar á þessu ári.

Skýrsla Ofcom um fjölbreytni og jöfn tækifæri í sjónvarpi