Hversu mikilvægt er að kunna að nota internetið til að nálgast upplýsingar og deila þeim á ábyrgan og öruggan hátt? Svarið við þessari spurningu er einfalt að mati höfunda tveggja nýrra handbóka um miðlalæsi og vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun á netinu: Lífsnauðsynlegt. 

Báðar handbækurnar eru gefnar út á vegum Evrópuráðsins, sem eru alþjóðasamtök 47 ríkja í Evrópu.

Handbók um vernd barna og miðlalæsi er ætluð börnum, foreldrum og kennurum. Hún var fyrst gefin út árið 2003 en hefur nú verið endurskoðuð með tilliti til breyttra tíma og tæknibreytinga. Í henni er meðal annars að finna leiðbeiningar um ábyrga netnotkun og umfjöllun um ýmis siðferðileg álitamál sem upp geta komið þegar upplýsingum er deilt á veraldarvefnum. Fjallað er um mikilvægi þess að virða almenn mannréttindi, eins og tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs, á netinu rétt eins og annars staðar, og bent á leiðir til að tryggja vernd eigin persónuupplýsinga og bregðast við haturstali og einelti.

Handbókina má nálgast hér:

Handbók Evrópuráðsins um vernd barna og miðlalæsi.

Í handbók fyrir foreldra um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun á netinu er meðal annars fjallað um hefndarklám og „sexting“ (kynferðisleg skilaboð), auk þess sem farið er yfir helstu aðferðir sem kynferðisbrotamenn beita til að komast í samband við börn á netinu og þvinga þau til kynferðislegra athafna. Tilgangurinn með útgáfu handbókarinnar er að fræða börn og foreldra og leiðbeina þeim um þær ógnir sem við er að glíma á netinu.

Handbókina má nálgast hér:

Handbók Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun á netinu.