Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði skýrslu sinni í dag en nefndin var skipuð í árslok 2016 af fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni.

Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um stöðu fjölmiðla, bæði hér á landi og erlendis, og breytingar á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Lagðar eru fram tillögur um aðgerðir í sjö liðum sem snúa meðal annars að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá er einnig ítarleg samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum, auk sérálits tveggja nefndarmanna.

Framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Elfa Ýr Gylfadóttir, átti sæti í nefndinni en auk hennar sátu í nefndinni Björgvin Guðmundsson, formaður, meðeigandi KOM ráðgjafar, Hlynur Ingason, starfsmaður í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Soffía Haraldsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri mbl.is og Svanbjörn Thoroddsen, meðeigandi KPMG.

Á vef Stjórnarráðs Íslands kemur fram að mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fagni tillögum og greinargerð nefndarinnar og telji þær mjög gagnlegar við frekari undirbúning aðgerða af hálfu stjórnvalda til að styrkja rekstrargrundvöll frjálsra fjölmiðla á Íslandi.

Þá hefur mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið að setja strax af stað frekari stefnumótun innan ráðuneytisins um stöðu fjölmiðlunar hér á landi. Þar verða áhrifin metin af fyrirhuguðum aðgerðum. Leitað verður eftir samvinnu og samstarfi við hagsmunaaðila, stjórnmálaflokka og almenning. Markmiðið er að ná breiðri sátt um starfsemi fjölmiðla og hugsanlega aðkomu ríkisins að lýðræðis- og menningarhlutverki þeirra, eins og segir á vef Stjórnarráðs Íslands.

Skýrslan er aðgengileg hér: Rekstrarumhverfi fjölmiðla – Tillögur nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla

—    —   —

Fjölmiðlanefnd hefur tekið saman myndrænt yfirlit yfir stærstu fjölmiðlafyrirtækin á Íslandi og fjölmiðla í þeirra eigu. Þar má nálgast upplýsingar um helstu fjölmiðla og fjölmiðlaveitur sem tillögur nefndarinnar taka til. Tekið skal fram að ekki er um að ræða tæmandi yfirlit yfir alla skráða fjölmiðla.

Yfirlitið má nálgast hér: Íslensk fjölmiðlafyrirtæki 2018 – myndrænt yfirlit