Gylfi Ólafsson hefur verið ráðinn tímabundið sem verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd. Gylfa er ætlað að afla gagna og leggja mat á tillögur nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem birtar voru í janúar sl. Byggt verður á afrakstri þeirrar vinnu við undirbúning að ákvörðunartöku stjórnvalda um hvernig hægt er að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Meðal annars verður byggt á mikilvægum upplýsingum í skýrslum fjölmiðla sem þeir afhenda fjölmiðlanefnd árlega, samkvæmt lögum um fjölmiðla. Gert er ráð fyrir að fyrstu hugmyndir liggi fyrir í byrjun sumars en það veltur á því hversu vel mun ganga að afla nauðsynlegra upplýsinga frá fjölmiðlunum sjálfum.

Gylfi er með M.Sc. í heilsuhagfræði frá Stokkhólmsháskóla og er að ljúka doktorsgráðu í sömu fræðigrein við Karolinska-stofnunina í Stokkhólmi. Hann starfaði sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra 2016-2017 og hefur sinnt stundakennslu í heilsuhagfræði og skyldum greinum við Háskóla Íslands. Gylfi hefur starfað við dagskrárgerð í útvarpi og gegndi stöðu fréttamanns hjá Ríkisútvarpinu sumrin 2009-2011. Þá hefur hann sinnt ýmsum verkefnum fyrir bæði fyrirtæki og samtök.