Óformlegu pólitísku samkomulagi hefur verið náð um nýja hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var á vef Evrópuþingsins fyrir stundu. Endurbættri tilskipun er ætlað að færa evrópska sjónvarpslöggjöf inn í 21. öldina og laga hana að breyttum veruleika. 

Gert er ráð fyrir að kosið verði um nýja tilskipun í september og að formlegu samkomulagi verði þá náð. Eftir að formlegu, pólitísku samkomulagi hefur verið náð hafa aðildarríkin tvö ár til að innleiða tilskipunina. Ísland mun jafnframt innleiða nýju tilskipunina þegar hún hefur verið samþykkt innan EES.  

Núgildandi hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB gildir um hljóð- og myndmiðla á EES-svæðinu. Hún var innleidd hér á landi með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 en lögin hér á landi gilda um allar tegundir fjölmiðla.

Hverjar eru helstu nýjungarnar í nýrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB?

  • Skýrari reglur um lögsögu ríkja, bæði fyrir línulega og ólínulega miðla
  • Aukin vernd barna bæði í sjónvarpi og í myndmiðlum eftir pöntun. Nýjar reglur ganga m.a. út á að mynddeilisíður eins og Youtube geri ráðstafanir til að auka vernd barna og tryggi tæknileg úrræði svo unnt verði að tilkynna ólögmætt efni með einföldum hætti. Mynddeilisíður verða jafnframt ábyrgar fyrir því að bregðast við og fjarlægja efni eins skjótt og mögulegt er, þegar tilkynningar um ólögmætt og skaðlegt myndefni berast frá notendum.
  • Gildissvið verður víkkað út að hluta til mynddeilisíðna (e. video sharing platforms), og efnisveitna sem miðla myndefni, eins og Youtube, Netflix og Facebook. Reglurnar munu einnig gilda um streymissíður, þ.e. mynddeilisíður sem streyma efni beint á netinu.
  • Hlutfall evrópsks efnis í dagskrá verður lækkað úr 50% í 30% í línulegri dagskrá og gilda þær reglur einnig um myndmiðlun eftir pöntun.
  • Meiri sveigjanleiki í reglum um auglýsingar. Nýjar reglur um auglýsingar gera ráð fyrir að 20% reglan um auglýsingahlutfall innan klukkustundar í sjónvarpi falli úr gildi og í staðinn komi 20% regla sem gildir annars vegar á tímabilinu frá kl. 6 að morgni til kl. 18 síðdegis og hins vegar á svokölluðum kjörtíma (e. „prime-time“) sem hefur verið skilgreindur frá kl. 18 til miðnættis. Auglýsingar á þessu tímabili mega einungis vera 20% af dagskrárefni.
  • Sjálfstæði eftirlitsstofnana verður jafnframt styrkt með nýrri tilskipun.

 Tilkynning á vef Evrópuþingsins 26 .apríl 2018