Í maí 2017 birti fjölmiðlanefnd ákvörðun þess efnis að 365 miðlar hefðu brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu áfengisauglýsinga í október-, nóvember- og desemberhefti tímaritsins Glamour árið 2016. Með ákvörðuninni var 365 miðlum gert að greiða 1.000.000 kr. í stjórnvaldssekt. 365 miðlar höfðu við meðferð málsins haldið því fram að tímaritið væri á ábyrgð erlends útgáfufélags, sem væri með aðalskrifstofu í London, og væri þar með utan íslenskrar lögsögu.

365 miðlar kröfðust ógildingar á ákvörðun fjölmiðlanefndar fyrir héraðsdómi, á þeim forsendum að með henni hefði fjölmiðlanefnd farið út fyrir valdmörk sín. Þar að auki hafi fjölmiðlanefnd með ákvörðun sinni brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands með því að íslenskum tímaritum á borð við Glamour væri mismunað í samanburði við erlend tímarit, á grundvelli íslenskra laga.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 12. nóvember 2018, var fjölmiðlanefnd sýknuð af öllum kröfum 365 miðla. Í dóminum er fallist á þá niðurstöðu fjölmiðlanefndar að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar, sem stöfuðu m.a. frá 365 miðlum, bæru með sér að tímaritið Glamour hafi verið starfrækt af 365 miðlum og að ekki hafi orðið raunverulegar breytingar í þeim efnum eftir að hið breska dótturfélag var skráð sem útgefandi. Hafi fjölmiðlanefnd því verið rétt að beina ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta að hinu íslenska útgáfufélagi. Þá féllst dómurinn ekki á röksemdir 365 miðla þess efnis að bann við áfengisauglýsingum brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár eða reglum EES-réttar, enda hafi Hæstiréttur hafnað þeim sjónarmiðum í dómaframkvæmd.

Sökum þessa var fjölmiðlanefnd sýknuð af kröfu um ógildingu á framangreindri ákvörðun fjölmiðlanefndar og var 365 miðlum gert að greiða 800.000 kr. í málskostnað.