Ný hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB var birt í Stjórnartíðindum ESB í gær, miðvikudaginn 28. nóvember. Tilskipunin tekur gildi 19. desember 2018 og eftir það hafa aðildarríki ESB tæplega tvö ár til að innleiða hana. Ísland mun einnig innleiða tilskipunina þegar hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn.

Núgildandi hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB var innleidd hér á landi með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Sú tilskipun gildir um hljóð- og myndmiðla eingöngu en lög um fjölmiðla gilda um allar tegundir fjölmiðla. Gildissvið nýju hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar verður víðtækara en fyrri tilskipunar, þar sem sem það mun einnig ná til mynddeilisíðna (e. video-sharing platforms) hvað varðar reglur um vernd barna, haturstal og tilteknar reglur um viðskiptaboð.

Ný hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB 2018/1808