Fjölmiðlanefnd hefur hafnað beiðni Menn í vinnu ehf. um andsvar vegna umfjöllunar Kveiks 2. október, yfirlýsingar ritstjóra Kveiks á Vísi 3. október og umfjöllunar Kastljóss 4. október 2018.

Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar segir að réttur til andsvara skv. 36. gr. laga um fjölmiðla lúti að því að leiðrétta staðreyndir en ekki að því að koma sjónarmiðum að með almennum hætti. Fjölmiðlaveitu sé heimilt að synja um andsvar fari andsvarið yfir þau mörk í tíma eða lengd sem talin séu nauðsynleg til að leiðrétta staðreyndir málsins, sem og ef í andsvarinu felist annað og/eða meira en slík leiðrétting.

Meintar rangfærslur í þættinum hafi verið, ef einhverjar, minniháttar og að teknu tilliti til þess sé það mat nefndarinnar að RÚV hafi verið heimilt að synja beiðni um andsvar á grundvelli 36. gr. laganna, sbr. a- b- og d. lið 2. mgr. ákvæðisins.

Jafnframt er það niðurstaða fjölmiðlanefndar að RÚV hafi verið heimilt að synja beiðni kvartanda um andsvar vegna umfjöllunar Kastljóss 4. október 2018, enda telur nefndin að ekki hafi verið færð fullnægjandi rök fyrir beiðni þar um, auk þess sem í þættinum hafi ekki komið fram rangar staðreyndir sem unnt sé að rekja beint til kvartanda. Þær athugasemdir sem fram hafi komið af hálfu Menn í vinnu ehf. vegna umfjöllunar í Kastljósi hafi  ekki falið í sér leiðréttingu á ótvíræðum staðreyndavillum og hafi RÚV því einnig verið rétt að synja kvartanda um að miðla umbeðnu andsvari.

Loks er það niðurstaða nefndarinnar að RÚV hafi verið heimilt að synja beiðni um andsvar vegna yfirlýsingar Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, á Vísi 3. október, þar sem ekki hafi verið færð rök fyrir beiðni þar um, sbr. skilyrði 1. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla.

Ákvörðun 9/2018