Árin 2017 og 2018 svöruðu starfsmenn fjölmiðlanefndar fjölda fyrirspurna frá erlendum aðilum um íslenskt lagaumhverfi, vegna Brexit; útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Gert er ráð fyrir að um 1500 evrópskar sjónvarpsstöðvar, sem sjónvarpa yfir landamæri úr breskri lögsögu, gætu þurft að finna sér nýtt staðfesturíki þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu og er Ísland eitt af mörgum EES-ríkjum sem koma til greina.

Af hverju eru sjónvarpsstöðvar staðsettar í lögsögu annarra Evrópuríkja?

Í mörg ár hefur evrópskum sjónvarpsstöðvum verið heimilt að staðsetja sig í lögsögu hvaða EES-ríkis sem er og beina útsendingum sínum yfir landamæri til annarra EES-ríkja, að því tilskildu að lög og reglur í viðkomandi ríki séu í samræmi við gildandi hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB.  Þetta stafar af því að tilskipunin byggir á svokallaðri meginreglu um upprunaríki (e. country of origin principle). Samkvæmt tilskipuninni er sjónvarpsstöðvum heimilt að staðsetja sig í lögsögu mismunandi ríkja EES að því gefnu að tiltekin starfsemi fari fram innan viðkomandi lögsögu, þar með taldar ritstjórnarlegar ákvarðanir. Sömu reglu er að finna í nýrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun sem tók gildi 6. nóvember sl. og verður innleidd í landslög allra EES-ríkja á næstu tveimur árum. Tilskipunin tryggir að ákveðnar lágmarksreglur gildi um hljóð- og myndmiðla í öllum EES-ríkjum. 

Meginreglan um upprunaríki gengur út á það að hljóð- og myndmiðlar sem miðla efni yfir landamæri þurfi einungis að hlíta reglum í einu upprunalandi (staðfesturíki) en ekki reglum 31 ólíkra ríkja innan EES. Til dæmis eru sænsku sjónvarpsstöðvarnar TV3 og Kanal 5 staðsettar í breskri lögsögu og sjónvarpa yfir landamæri Bretlands til Svíþjóðar. Þetta þýðir að þessar sænsku sjónvarpsstöðvar starfa í samræmi við breskar lagareglur um fjölmiðla og eru undir eftirliti breska fjölmiðlaeftirlitsins Ofcom. Sem dæmi um grundvallarmun á sænskum og breskum lögum um fjölmiðla má nefna að sjónvarpsstöðvar í breskri lögsögu mega auglýsa áfengi, þótt áfengisauglýsingar í sjónvarpi séu bannaðar í Svíþjóð.

Hvað ef niðurstaðan verður „hart Brexit“, þ.e. Brexit án nokkurs aðgangs að innri markaði ESB?

Hvað verður um evrópskar sjónvarpsstöðvar í breskri lögsögu þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu 30. mars 2019? Nái Bretar ekki samkomulagi við Evrópusambandið í tengslum við þennan tiltekna anga Brexit-útgöngunnar mun hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB ekki lengur gilda um þær sjónvarpsstöðvar sem staðsettar eru í Bretlandi og sjónvarpa yfir landamæri til annarra Evrópuríkja. Þær verða því að finna sér annað staðfesturíki eða hugsanlega byggja á öðrum alþjóðasamningum sem gerðir hafa verið um starfsemi hljóð- og myndmiðla yfir landamæri. Hefur Sáttmáli Evrópuráðsins um sjónvarpsútsendingar yfir landamæri (e. European Convention on Transfrontier Television) helst verið nefndur í því sambandi. Sáttmálinn er frá árinu 1989 en tók ekki gildi fyrr en árið 1993. Helsti ókostur sáttmálans er að hann hefur ekki verið uppfærður síðan á árinu 1998 og endurspeglar því hvorki þær tækniframfarir sem orðið hafa á fjölmiðlamarkaði né tekur hann mið af þeim breytingum sem urðu með innleiðingu hljóð- og myndmiðlunartilskipunar ESB frá árinu 2007. Sáttmálinn tekur t.d. ekki til verndar barna og reglna um viðskiptaboð með sama hætti og hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB gerir, svo fátt eitt sé nefnt. Ísland er ekki aðili að Sáttmála Evrópuráðsins um sjónvarpsútsendingar yfir landamæri.

Lesa má meira um það á vef bresku ríkisstjórnarinnar hvað við blasir í þessum efnum ef ekki tekst að ná samkomulagi við Evrópusambandið um að leyfi evrópskra sjónvarpsstöðva í breskri lögsögu gildi áfram innan EES.

Hér má svo lesa umfjöllun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um þýðingu Brexit á vettvangi hljóð- og myndmiðla.