Evrópskt samstarf

Aukin alþjóðavæðing hefur leitt til þess að sjónvarpsstöðvar eru nú í auknum mæli staðsettar í einu landi en ætlað að ná til íbúa í öðru landi. Dæmi um slíkt er Bretland þar sem ríflega 1.000 sjónvarpsstöðvar eru með aðsetur, en aðeins brot af þeim sendir út á ensku. Ofcom, fjölmiðla- og fjarskiptaeftirlit Bretlands er því skylt að hafa eftirlit með öllum þeim stöðvum sem senda út frá Bretlandi, óháð tungumáli stöðvarinnar. Á Bretlandi er fjöldi stöðva sem er ætlað að ná til Norðurlandanna. Má þar nefna TV3, TV6, TV8, Kanal 5, Kanal 9 og ZTV sem er ætlað að ná til sænskra, norskra og danskra áhorfenda.

Aukin samvinna stjórnsýslustofnana á sviði fjölmiðlamála hefur leitt til þess að formlegu samstarfi hefur verið komið á milli stofnana einstakra aðildarríkja EES. Má í þessu sambandi benda á að allar kærur vegna efnis sem sent er út á Norðurlandamálunum frá fyrrgreindum stöðvum í Bretlandi eru áframsendar af systurstofnunum/nefndum fjölmiðlanefndar á Norðurlöndunum til Ofcom í Bretlandi. Ofcom þarf því að búa yfir sérþekkingu til að geta tekið við og meðhöndlað kærur frá Norðurlöndunum.