Tengslanet framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

Evrópuríki hafa undanfarna áratugi haft með sér öflugt og fjölþætt samstarf um málefni fjölmiðla. Tilkoma gervihnattasjónvarps á níunda áratug síðustu aldar gerði sjónvarpsútsendingar yfir landamæri auðveldari en áður og kallaði á aukið samstarf innan ESB varðandi löggjöf og lagaframkvæmd á þessum vettvangi.

Markmið samstarfsins er margvíslegt og innan ESB og EES lýtur samstarfið m.a. að því að koma á öflugum innri markaði á vettvangi hljóð- og myndmiðlunar. Löggjöf ESB miðar að því að samræma löggjöf aðildarríkjanna um tiltekna þætti hljóð- og myndmiðlunar og er íslenska ríkið skuldbundið til að leiða það í lög og tryggja eftirlit með því á grundvelli EES-samningsins.

Tengslanefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hljóð- og myndmiðla er þannig vettvangur stjórnsýslustofnana/nefnda í Evrópu til að hafa samstarf sín á milli og til að vera vettvangur þar sem fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB eru til staðar m.a. þegar leita þarf skýringa og frekari túlkunar á tilteknum ákvæðum hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar.