Kvartanir

Fjölmiðlanefnd fjallar um erindi vegna ætlaðra brota á ákvæðum fjölmiðlalaga og tekur ákvörðun um það hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar. Við afgreiðslu mála er fjölmiðlanefnd heimilt að raða málum í forgangsröð. Þá er nefndinni einnig heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.

Fjölmiðlanefnd skal, eins fljótt og við verður komið, taka ákvörðun í málum vegna erinda sem til hennar er beint. Nefndin skal eftir því sem við á gæta trúnaðar við meðferð upplýsinga og gagna sem hún aflar eða henni berast um hagi einstakra fjölmiðlaveitna. Þótt fjölmiðlanefnd afhendi upplýsingar til annarra sambærilegra stjórnsýslustofnana, sem fara með fjölmiðlamál innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal sami trúnaður ríkja. Nefndinni ber að tryggja að tölulegar upplýsingar séu ekki rekjanlegar til einstakra fjölmiðlafyrirtækja.

Fjölmiðlanefnd getur krafið fjölmiðlaveitur um skriflegar upplýsingar og gögn vegna ætlaðra brota á ákvæðum fjölmiðlalaga og skulu slíkar upplýsingar og gögn þá veitt innan hæfilegs frests sem nefndin setur. Þá getur fjölmiðlanefnd við rannsókn ætlaðra brota gegn þeim ákvæðum VI. kafla fjölmiðlalaga er varða viðskiptaboð og fjarkaup gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fjölmiðlaveitu eða stað þar sem gögn eru varðveitt þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn umræddum ákvæðum. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.

Allar kvartanir sem berast fjölmiðlanefnd þar sem farið er fram á aðgerðir á grundvelli fjölmiðlalaga eða annarra laga sem fjölmiðlanefnd er ætlað að hafa eftirlit með skulu vera:

- Skriflegar og undirritaðar. (Bréf sent í pósti eða skannað og sent í tölvupósti).
– Greina skal frá nafni, heimilisfangi og kennitölu þess sem sendir erindið.
– Lögaðilar skulu greina stuttlega frá því hvers kyns starfsemi þeir stunda.
– Greina skal frá því hvaða fjölmiðli* (lögaðila eða einstaklingi) erindið beinist að.
– Greina skal frá dagsetningu og tímasetningu miðlunar efnisins, eftir því sem við á.
– Gefa skal nákvæma lýsingu á atvikum.
– Rökstyðja skal hvers vegna atvikið er talið vera brot á lögum.

*Lista yfir skráða og leyfisskylda fjölmiðla er að finna hér og hér.

Leiðbeiningar um kvartanir til fjölmiðlanefnda og rétt til andsvara

Starfsreglur fjölmiðlanefndar

Málsmeðferðarreglur fjölmiðlanefndar