Lýðræðislegar grundvallarreglur

Í fjölmiðlalögum er mælt fyrir um að fjölmiðlar skuli í starfsemi sinni halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Þeim ber að virða mannréttindi og jafnrétti auk þess að hafa í huga friðhelgi einkalífs. Vísar ákvæðið til þeirra hugmynda sem liggja til grundvallar upplýstri umræðu og ákvarðanatöku í lýðræðissamfélagi. Slíkar lýðræðishugmyndir byggja á að upplýst umræða, tjáningarfrelsi og réttur til upplýsinga að teknu tilliti til friðhelgi einkalífs sé grundvöllur lýðræðisins.

Fyrirmynd framangreinds ákvæðis er m.a. fengin úr norrænum, breskum, þýskum og írskum fjölmiðlalögum þar sem þessi skylda hefur verið nefnd sannleikskrafan (s. saklighet och opartiskhet / e. accuracy and impartiality). Til þess að borgarar geti myndað sér skoðanir og tekið upplýstar ákvarðanir þurfa þeir að hafa aðgang að ólíkum sjónarmiðum og hlutlægum upplýsingum og gegna fjölmiðlar veigamiklu hlutverki í þessu sambandi.

Krafan um hlutlægni felur m.a. í sér að staðhæfingar sem settar eru fram skulu vera réttar og að allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram. Rangfærslur ber því að leiðrétta. En í þessu sambandi er m.a. vísað til faglegrar blaða- og fréttamennsku þar sem leitað er ólíkra heimilda og heimildarmanna til að sannreyna staðreyndir áður en upplýsingar eru birtar. Líta verður til félagslegra gilda frétta og upplýsinga þar sem blaða- og fréttamenn þurfa með ábyrgum hætti að miðla upplýsingum og fréttum til notenda. Blaða- og fréttamenn bera ábyrgð á því efni sem miðlað er og bera fyrst og fremst ábyrgð gagnvart notendum fjölmiðlanna.

Í ákvæðinu er friðhelgi einkalífs getið sérstaklega þar sem ákveðin mörk eru milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Rétturinn til friðhelgi einkalífsins stafar af réttinum til frelsis og sjálfsákvörðunar, svo lengi sem sá réttur hefur ekki áhrif á frelsi og réttindi annarra. Er litið svo á að þessi sjálfsagði réttur sé meðal mikilvægustu grundvallarmannréttinda og ein mikilvægasta stoð lýðræðis. Fjölmiðlar eru ekki undanþegnir því að þurfa að taka tillit til grundvallarreglunnar um friðhelgi einkalífs við meðferð á persónuupplýsingum.

Í ljósi þess mikilvæga lýðræðishlutverks sem fjölmiðlar gegna njóta þeir mikils frelsis til að þeir geti sem best upplýst almenning um atburði líðandi stundar og eðli þjóðfélagsins. Frelsi fylgir ábyrgð og því þarf að gæta varúðar í þessum efnum.

Hér er að finna samsvarandi reglur í Bretlandi.

Hér er að finna samsvarandi reglur í Svíþjóð.

Hér er að finna drög að nýjum reglum um lýðræðislegar grundvallarreglur á Írlandi.

Hér er að finna samsvarandi reglur í Þýskalandi (10. gr. laganna).