Réttur til andsvara

Samkvæmt fjölmiðlalögum hefur sá sem telur að lögmætir hagsmunir sínir, einkum æra eða orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli rétt til andsvara í viðkomandi miðli eða til annarra jafngildra úrræða.

Andsvör skulu birt eða þeim miðlað eftir að rök hafa verið færð fyrir beiðni þar um. Þegar um prentmiðil eða vefmiðil er að ræða skal birta andsvör með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið og þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða skal andsvörum miðlað á þeim tíma þegar hlustun eða áhorf er mest og með þeim hætti sem best hæfir miðlun þess efnis sem beiðnin tekur til. Fjölmiðli er óheimilt að óska eftir greiðslu fyrir birtingu eða miðlun andsvars.

Fjölmiðill getur synjað beiðni um andsvar við eftirfarandi aðstæður:
– ef andsvarið fer yfir þau mörk í tíma eða lengd sem talin eru nauðsynleg til að leiðrétta staðreyndir málsins.
– ef í andsvarinu felst annað og/eða meira en að leiðrétta staðreyndir sem fram hafa komið hjá fjölmiðlinum.
– ef andsvarið felur í sér efni sem brýtur í bága við almenn hegningarlög og er til þess fallið að gera fjölmiðilinn skaðabótaskyldan eða er andstætt almennu siðferði.
– ef andsvarið brýtur gegn lögvörðum hagsmunum þriðja aðila.
– ef aðili getur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta.
– ef upplýsingarnar sem fjölmiðillinn miðlaði eru beinar tilvitnanir í gögn sem stafa frá stjórnvöldum eða dómstólum.

Fjölmiðill skal tilkynna hlutaðeigandi aðila um synjun innan þriggja sólarhringa frá því að beiðni um andsvar er sett fram.

Synji fjölmiðill beiðni um andsvar eða bregðist ekki við beiðni innan fyrrgreindra tímamarka getur hlutaðeigandi beint erindi þar að lútandi til fjölmiðlanefndar sem tekur ákvörðun um hvort aðili eigi rétt á að koma andsvörum á framfæri. Ákvörðun skal tekin innan viku frá því að fjölmiðlanefnd berst erindi þar um og skal nefndin leggja fyrir viðkomandi fjölmiðil að miðla andsvari án tafar þegar við á.

Fjölmiðlar skulu hafa aðgengilegt á heimasíðu sinni, eða með öðrum opinberum hætti, hvert aðili geti leitað telji hann að lögmætir hagsmunir sínir hafi beðið tjón. Gefa skal upp nafn, símanúmer og/eða netfang þess sem leita skal til hjá viðkomandi fjölmiðli.

Leiðbeiningar um kvartanir til fjölmiðlanefnda og rétt til andsvara