Ríkisútvarpið

Um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu gilda lög nr. 23/2013. Fjölmiðlanefnd er ætlað að hafa eftirlit með tilteknum ákvæðum laganna. Þannig skal fjölmiðlanefnd árlega leggja sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt skv. 3. gr. laganna. Matið skal afhent stjórn Ríkisútvarpsins og ráðherra eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt.

Þá skal Ríkisútvarpið láta fjölmiðlanefnd í té upplýsingar til að hún geti sannreynt og metið gagnsæi og hlutlæga kostnaðargreiningu á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins, byggða á ársreikningi næstliðins árs.

Fjölmiðlanefnd er einnig ætlað að leggja mat á nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. En í lögunum er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli óska eftir heimild ráðherra fyrir nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, skv. 3. gr. ef áætlað er að hún muni kosta meira en sem nemur 10% af innheimtu útvarpsgjaldi. Jafnframt skal óska eftir mati fjölmiðlanefndar á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og skal liggja fyrir ítarlegur rökstuðningur og fjárhagsáætlun. Fjölmiðlanefnd skal meta fyrirhugaða þjónustu og hvort hún uppfyllir lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir í íslensku samfélagi og gera tillögu til ráðherra um hvort hún skuli heimiluð. Þá skal gefa hagsmunaaðilum og almenningi þriggja vikna frest til að koma athugasemdum sínum á framfæri við fjölmiðlanefnd. Skal ráðherra innan 12 vikna frá því að ósk Ríkisútvarpsins berst kynna ákvörðun sína sem byggð er á tillögu fjölmiðlanefndar.