Hlutverk og skyldur

Í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 er kveðið á um hlutverk og skyldur félagsins. Er um nokkuð ítarlega upptalningu að ræða, m.a. í 3. gr. laganna. Þannig segir m.a að fjölmiðlaþjónusta Ríkisútvarpsins hafi það markmið að mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi með miðlun texta, hljóðs og mynda. Þá á Ríkisútvarpið að framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu. Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.

Ríkisútvarpið skal dreifa efni til alls landsins og næstu miða a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring. Þá skal Ríkisútvarpið í samvinnu við til þess bær stjórnvöld tryggja nauðsynlega öryggisþjónustu með upplýsingamiðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boðleiðum.

Ríkisútvarpið skal varðveita hljóðritanir og aðrar sögulegar minjar sem ætla má að hafi menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina.

Það skal jafnframt skapa vettvang fyrir aðkomu almennings að stefnumótun fjölmiðlunar í almannaþágu með fyrirkomulagi sem nánar er kveðið á um í samþykktum Ríkisútvarpsins.

Þá er Ríkisútvarpið ætlað að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.
3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.
4. Kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða í landinu.
5. Miðla upplýsingum og veita landsmönnum innsýn í alþjóðamál, mismunandi menningarheima og ólík sjónarmið.
6. Hafa hlut karla og kvenna sem jafnastan í starfsemi Ríkisútvarpsins og í dagskrá þess.
7. Kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal birta reglur þar að lútandi. Í alþingiskosningum er heimilt að takmarka útsendingartíma þeirra framboða sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum þannig að þau fái hlutfall af heildarútsendingartíma til samræmis við það hlutfall kjördæma sem þau bjóða fram í.

Ríkisútvarpið er ætlað að sinna menningarlegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Leggja rækt við íslenska tungu.
2. Kynna sögu þjóðarinnar, menningararfleifð og náttúru.
3. Bjóða fjölbreytt og vandað menningarefni og fjalla um ólík svið menningar, lista og íþrótta á Íslandi og erlendis, auk þess að vera vettvangur umræðna og skoðanaskipta um íslenska menningu og samfélag.
4. Framleiða sjálft og í samstarfi við aðra lista- og menningarefni, með sérstakri áherslu á leikið efni, auk þess að endurspegla samtímamenningu þjóðarinnar. Ríkisútvarpið skal vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum. Í samningi sem ráðherra gerir við Ríkisútvarpið skv. 4. mgr. 2. gr. skal mælt fyrir um lágmarkshlutfall dagskrárefnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum.
5. Framleiða og miðla fjölbreyttu efni við hæfi barna og ungmenna.
6. Miðla afþreyingar- og menningarefni við hæfi fólks á öllum aldri. Erlent efni skal vera frá mismunandi menningarheimum og áhersla lögð á norrænt og annað evrópskt efni.

Í starfsháttum sínum skal Ríkisútvarpið:
1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.
2. Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.
3. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.
4. Virða friðhelgi einkalífsins í fréttum og dagskrárefni nema lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.
5. Vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.
6. Stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og rýna m.a. störf yfirvalda, félaga og fyrirtækja sem hafa áhrif á hag almennings.
7. Taka dagskrárákvarðanir á faglegum forsendum.