Textun og táknmálstúlkun

Í 6. gr. laga um Ríkisútvarpið er fjallað um textun og táknmálstúlkun. Þar segir að efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins, skuli fylgja íslenskt tal, íslensk talsetning eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði er gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal, eftir því sem kostur er, látin fylgja endursögn, textun eða kynning á íslensku á þeim atburðum sem sýndir eru. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausri íslensku.

Jafnframt er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli veita heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á fréttum og öðru sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma.

Þá segir einnig að ef rof verður á dagskrá eða fréttatímar sendir út við sérstakar aðstæður skuli Ríkisútvarpið gera mikilvæg skilaboð og fréttir aðgengilegar heyrnarskertum með táknmálstúlkun og/eða textun. Ríkisútvarpið skuli leita leiða til að koma til móts við sjónskerta með tæknilegum aðferðum.