Viðskiptaboð

Samkvæmt 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 skulu viðskiptaboð skýrt afmörkuð frá öðru dagskrárefni félagsins og gæta skal hófsemi í birtingu.

Þá segir að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis en þó má víkja frá því í eftirfarandi tilvikum:
a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,
b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.

Samkvæmt lögum er Ríkisútvarpinu óheimilt að slíta í sundur dagskrárliði með viðskiptaboðum í sjónvarpi en þó má víkja frá því við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða eða eigin framleiðslu sem er a.m.k. 60 mínútur að lengd. Ríkisútvarpið setur reglur um þau undanþágutilvik sem getið er í 1. málsl.

Hlutfall viðskiptaboða er takmarkaður og segir að í myndmiðlun skuli hlutfall viðskiptaboða og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar ekki fara yfir átta mínútur. Í merkingu þessa ákvæðis telst eftirfarandi ekki til viðskiptaboða:
a. Tilkynningar frá Ríkisútvarpinu um myndmiðlunarefni þess og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar.
b. Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.

Jafnframt er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli setja og birta gjaldskrá fyrir viðskiptaboð. Við sölu viðskiptaboða skuli gætt jafnræðis gagnvart viðskiptamönnum Ríkisútvarpsins. Einnig skuli afsláttarkjör fyrir kostunaraðila og auglýsendur vera gagnsæ og standa öllum viðskiptamönnum til boða fyrir sambærilegt umfang viðskipta.

Ríkisútvarpinu er óheimilt samvkæmt lögum að selja viðskiptaboð til birtingar á veraldarvefnum. Heimilt er þó að láta þau viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem eru hluti af útsendingu dagskrár Ríkisútvarpsins birtast á vef þess. Þá er Ríkisútvarpinu heimilt að birta á vef sínum viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem tengjast vefútsendingum sérstaklega og kynna þar dagskrá Ríkisútvarpsins ásamt þjónustu og hlutum sem tengjast henni.

Vöruinnsetning er óheimil í efni sem Ríkisútvarpið framleiðir sjálft og/eða framleiðir í samstarfi við aðra innlenda aðila og er sérstaklega framleitt fyrir Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpinu er þó heimilt að nota upptökustaði og leikmuni eða vísa til ákveðinnar þjónustu vegna notagildis og/eða í listrænum tilgangi og skal það gert með látlausum hætti.

Fjölmiðlanefnd er ætlað að hafa eftirlit með því að Ríkisútvarpið fari að ákvæðum laga um viðskiptaboð.