Ritstjórnarlegt sjálfstæði

Samkvæmt fjölmiðlalögum skal fjölmiðill setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Slíkar reglur skulu mótaðar í samræmi við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra. Í reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði skal m.a. fjallað um:
– Starfsskilyrði viðkomandi efnisstjóra, blaða- og fréttamanna ritmiðla og hljóð- og myndmiðla við að framfylgja ritstjórnar- eða dagskrárstefnu fjölmiðilsins.
– Starfshætti sem ætlað er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði viðkomandi efnisstjóra, blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðilsins.
– Skilyrði áminningar og uppsagnar viðkomandi efnisstjóra og blaða- og fréttamanna.

Skulu reglurnar sendar fjölmiðlanefnd til staðfestingar fyrir 20. apríl ár hvert. Þá skulu reglurnar endurskoðaðar árlega og tilkynna skal fjölmiðlanefnd þegar endurskoðun hefur farið fram og senda henni nýja útgáfu af reglunum til staðfestingar hafi breytingar verið gerðar.

Ákvæði um að fjölmiðlar skuli setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði eru í samræmi við tillögur hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar Alþingis frá árinu 2005 sem lagði til að fjölmiðlar myndu setja sér slíkar reglur.

Fjölmiðlar eiga samkvæmt lögum að senda reglurnar í apríl og verða þær þá aðgengilegar á vef fjölmiðlanefndar.

Reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði hverrar fjölmiðlaveitu eru aðgengilegar á undir flipanum “leyfi og skráning” á heimasíðu fjölmiðlanefndar.