Tal og texti á íslensku

Í fjölmiðlalögum er að finna ákvæði þess eðlis að allir fjölmiðlar skuli eftir fremsta megni stuðla að menningarþróun og eflingu íslenskrar tungu. Enn fremur er tekið fram að engu síður sé heimilt að starfrækja fjölmiðla hér á landi á öðrum tungumálum en íslensku.

Ákvæðið á sér fyrirmynd í útvarpslögum en í fjölmiðlalögum er því ætlað að gilda jafnt um alla þá fjölmiðla hér á landi sem miðla efni sínu til íslenskra notenda. Þeim ber því öllum að stuðla að framgangi nefndra gilda og gæta að því að það efni sem miðlað er á íslensku sé á vönduðu máli.

Sérstök ástæða er til að vekja á því athygli að íslensk málstefna var samþykkt á Alþingi vorið 2009 og menntamálaráðherra falið að fylgja henni eftir (198. mál 136. löggjafarþings). Í íslensku málstefnunni er sérstaklega fjallað um málstefnu í fjölmiðlum. Þar er lagt til að fjölmiðlar (og auglýsingastofur) setji sér málstefnu, standi vörð um íslenskt mál, vandi til verka við þýðingar og yfirlestur skjátexta, hvetji til íslenskrar dagskrárgerðar, vandi talsetningu á efni fyrir börn o.fl. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nefnd til að útfæra tillögur um þetta. Niðurstaða nefndarinnar var sú að rétt væri að beina því til fjölmiðla sem miðla hljóði og texta á íslensku að setja sér málstefnu. Fjölmiðlum er nú samkvæmt lögum ætlað að marka sér málstefnu.

Í ákvæðinu er þó sérstaklega tekið fram að heimilt sé að starfrækja fjölmiðla hér á landi á öðrum tungumálum en íslensku. Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil fjölgun á erlendum ríkisborgurum sem sesta hafa að hér á landi í lengri eða skemmri tíma. Ekki er litið svo á að heimild til miðlunar efnis á öðrum tungumálum en íslensku sé talin andstæð málverndunarsjónarmiðum enda lúti þau fyrst og fremst að því að efni sem miðlað er á íslensku sé á vönduðu máli.

Hér er að finna þingsályktun um íslenska málstefnu.