Fjölmiðlalæsi

Fjölmiðlanefnd er samkvæmt lögum ætlað að stuðla að auknu fjölmiðlalæsi á meðal almennings. Hugtakið fjölmiðlalæsi vísar til færni, þekkingar og skilnings sem gerir notendum kleift að nýta sér fjölmiðla á öruggan og skilvirkan hátt.

Markmið fjölmiðlalæsis eða miðlalæsis er að auka skilning á ólíkum skilaboðum í fjölmiðlum. Það á að hjálpa notendum að bera kennsl á hvernig skilaboðum er komið áleiðis í gegnum fjölmiðla, hvernig fjölmiðlar eru skoðanamyndandi, hvernig þeir skapa alþýðumenningu og hvernig þeir hafa áhrif á val fólks. Miðlalæsi á að auka gagnrýna hugsun neytenda og auðvelda þeim að draga skynsamar ályktanir af þeim skilaboðum í fjölmiðlum sem þeir hafa aðgang að. Þá er miðlalæsi talið nauðsynlegt til að borgarar geti nýtt tjáningarfrelsið og haft aðgang að upplýsingum.

Fólk sem læst er á fjölmiðla getur valið efni á mun upplýstari hátt en aðrir, skilið eðli þess og markmið og fært sér í nyt öll þau tækifæri sem ný tækni á þessu sviði hefur upp á að bjóða. Það er að sama skapi betur fært um að vernda sig og fjölskyldu sína gegn skaðlegu og særandi efni. Það má segja að miðlalæsi sé í raun grunnurinn að virku lýðræði.

Hjá þeim alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að er lögð mikil áhersla á miðlalæsi enda er talið að miðlalæsi nú sé hugsanlega jafnmikilvægt fyrir þátttöku borgara í lýðræðissamfélagi eins og læsi var í upphafi 19. aldar. Í ljósi þessa er með ákvæðum laganna stefnt að því að auka miðlalæsi á meðal almennings, t.d. með því að gera upplýsingar um eigendur fjölmiðla aðgengilegar almenningi og með skýrari aðgreiningu dagskrárefnis annars vegar og auglýsinga og annarra viðskiptaorðsendinga auk fjarkaupa hins vegar.

Fjölmiðlanefnd er m.a. ætlað að stuðla að auknu miðlalæsi á meðal almennings og standa vörð um þau gildi sem liggja til grundvallar ákvæðum fjölmiðlalaga. En miðlalæsi er lykill að því að fólk geti bætt þekkingu sína og verið gagnrýnir og virkir þegnar í lýðræðisþjóðfélagi. Í greinargerð með frumvarpi til fjölmiðlalaga er fjölmiðlanefnd ætlað að standa með virkum hætti og í samstarfi við félagasamtök, menntamálayfirvöld o.fl. að fræðslu um miðlalæsi, t.d. með málþingum, birtingu upplýsinga á heimasíðu og fleiru sem getur nýst í þessum efnum.

Hér er að finna bækling um börn og miðlanotkun sem fjölmiðlanefnd, SAFT og Heimili og skóli gáfu út í apríl 2015, með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í bæklingnum er meðal annars umfjöllun um miðlalæsi.