Tölvuleikir og kvikmyndir

Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með lögum nr. 62/2006 um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum sem áður var í höndum Barnaverndarstofu. Samkvæmt lögunum er bannað að sýna börnum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og -tölvuleiki, sem og kvikmyndir eða tölvuleiki sem ógna velferð þeirra. Þá er bönnuð sýning, sala og önnur dreifing á slíku efni til barna sem hafa ekki náð lögræðisaldri.

Samkvæmt lögunum skal meta allar kvikmyndir og tölvuleiki sem ætlaðir eru til sýningar, sölu eða annarrar dreifingar hér á landi fyrir börn undir lögræðisaldri með tilliti til hvort leyfa beri eða takmarka sýningu, notkun eða afhendingu á slíku efni við tiltekið aldursskeið innan lögræðisaldurs. Sama gildir um ítarefni sem dreift er með kvikmyndum og tölvuleikjum og kynningarefni fyrir kvikmyndir og tölvuleiki.
Þessi skylda hvílir á þeim aðilum sem framleiða kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða sölu hér á landi, eða hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar, í atvinnuskyni hér á landi. Sömu aðilar skulu gæta þess að aðgangur að sýningum og afhending á kvikmyndum og tölvuleikjum sé í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Samkvæmt lögum skal ábyrgðaraðili setja sér verklagsreglur um framkvæmd mats og aldurstakmörkunar sem styðjast við alþjóðlega viðurkennd skoðunarkerfi fyrir kvikmyndir og tölvuleiki. Í verklagsreglunum á að taka mið af barnaverndarsjónarmiðum og þá skal einkum líta til eftirtalinna atriða og hvernig með þau er farið hverju sinni: söguefnis, orðfæris, beitingar ofbeldis, sýningar nektar og kynlífs og neyslu fíkniefna. Skal gera heildarmat á framangreindum atriðum og öðrum sem talið er að kunni að skipta máli.

Ábyrgðaraðili þarf samkvæmt lögum að birta verklagsreglurnar opinberlega, m.a. á vefsíðu sem almenningur hefur aðgang að og sölustöðum kvikmynda og tölvuleikja. Þar skal og tilgreina nafn matsstjóra ábyrgðaraðila og veita almenningi leiðbeiningar um móttöku erinda sem lúta að framkvæmd reglnanna og afgreiðslu slíkra erinda. Samkvæmt lögum á ábyrgðaraðili að færa niðurstöður um mat á sýningarhæfni kvikmynda og tölvuleikja í gagnagrunn sem almenningur hefur aðgang að.

 

Vakin er athygli á því að önnur aldurstakmörk gilda fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti en tölvuleiki. Við aldursmat á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum hafa ábyrgðaraðilar (kvikmyndahús og myndmiðlar) ákveðið að miða við aldursflokkana L, 6, 9, 12, 16 og 18 ára, sem eru sömu aldursflokkar og byggt er á í hinu alþjóðlega Kijkwijzer-aldursmatskerfi.

Hér á vef Kvikmyndaskoðunar er að finna nánari upplýsingar um aldursmat kvikmynda og sjónvarpsþátta hér á landi.

Hér á vef Kijkwijzer/NICAM í Hollandi eru einnig upplýsingar um aldursmat kvikmynda og sjónvarpsþátta, ásamt upplýsingum um þau sjónarmið sem liggja því aldursmati að baki. Kvikmyndahús og myndmiðlar nota Kijkwijzer-kerfið við aldursmat hér á landi.

Hér er að finna upplýsingar um eftirlit með kvikmyndum og tölvuleikjum í Danmörku.

Hér er að finna upplýsingar um eftirlit með kvikmyndum í Noregi.

Hér er að finna upplýsingar um eftirlit með kvikmyndum í Svíþjóð.