Vernd barna gegn skaðlegu efni

Samkvæmt fjölmiðlalögum er fjölmiðlum óheimilt að miðla hljóð- og myndefni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. Reglurnar byggja á tveggja þrepa kerfi hljóð- og myndmiðlunartilskipunar Evrópusambandsins og eru misstrangar eftir því með hvaða hætti efninu er miðlað. 

Bannað er að sýna dagskrárefni sem haft getur alvarleg, skaðvænleg áhrif á börn í línulegri dagskrá í sjónvarpi. Þegar talað er um línulega dagskrá er átt við hefðbundna sjónvarpsdagskrá, sem sýnd er í rauntíma en er ekki pöntuð eftir á. Bannið á fyrst og fremst við um grófasta efnið, klám og tilefnislaust ofbeldi, en einnig annað efni sem talið er geta haft sérlega neikvæð og/eða ógnvekjandi áhrif á hugarheim barna og ungmenna, hugmyndir þeirra og skoðanir til lengri tíma.

Þótt bannað sé að sýna grófasta efnið í línulegri dagskrá er fjölmiðlum er heimilt að miðla því eftir pöntun ef tryggt er með tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að því.

Aldursmat: Til viðmiðunar má segja að efni sem haft getur alvarleg, skaðvænleg áhrif á börn og bannað er að sýna í hefðbundinni sjónvarpsdagskrá sé efni með aldursmatið 18+.

Vatnaskilaákvæðið
Ekki gilda eins strangar reglur um efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á börn en það er efni sem valdið getur börnum á ýmsum aldri ótta, kvíða eða raskað hugarró þeirra. Það sama gildir um efni sem haft getur truflandi áhrif á börn eða komið þeim í uppnám, t.d. vegna orðfæris, siðferðisboðskapar eða athafna sem myndefnið sýnir. Dæmi um það síðastnefnda er myndefni sem sýnir ofbeldi, vímuefnanotkun eða kynferðislegar athafnir af einhverju tagi.

Bannað er að sýna efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á börn í línulegri dagskrá, á þeim tíma sem ætla má að börn sé að horfa. Frá þessu banni eru þær undantekningar að efninu má miðla eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum og eftir kl. 21 önnur kvöld vikunnar og til 5 á morgnana. Lagaákvæðið, þar sem þessa reglu er að finna, hefur verið kallað vatnaskilaákvæðið. Þá er fjölmiðlum einnig heimilt að miðla þessu efni eftir pöntun, t.d. í VOD-þjónustu, ef tryggt er með tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að því.

Aldursmat: Efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á börn fær mismunandi aldursmat, sem ræðst af eðli þess og innihaldi, raunveruleikastigi, andrúmslofti og fleiri sjónarmiðum. Kvikmyndir og DVD-myndir eru flokkaðar í aldursflokkana 18, 16, 12, 9 og 6 ára. Efni merkt L er leyft öllum aldurshópum. Í sjónvarpi eru kvikmyndir og sjónvarpsþættir merktir með auðkenni sjónvarpsstöðvarinnar sem ýmist er hvítt, gult eða rautt að lit. Hvítt merki þýðir að efnið er leyft öllum aldurshópum, gult merki táknar að efnið er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára en rautt merki þýðir að efnið er ekki við hæfi barna yngri en 16 ára.

Hafa ber í huga að ógnvekjandi eða óþægilegir hlutir í sjónvarpinu geta haldið áfram að trufla börnin eftir að þau eru hætt að horfa. Áhrif fjölmiðlaefnis á börn eru einstaklingsbundin og jafnvel sjónvarpsþáttur sem börnum er heimilt að horfa á út frá aldursviðmiðum getur valdið þeim ótta eða kvíða.

Fjölmiðlanefnd hefur túlkað vatnaskilaákvæði fjölmiðlalaga svo að það taki til efnis sem er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára. Efni með aldursmatið 12+ og hærra er því óheimilt að sýna fyrir vatnaskil.

Nánari upplýsingar um aldursmerkingar kvikmynda og sjónvarpsþátta er að finna á vefsíðunni www.kvikmyndaskodun.is og á heimasíðu NICAM í Hollandi, sem heldur úti Kijkwijzer-aldursmatskerfinu en ábyrgðaraðilar skv. lögum nr. 62/2006, um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, byggja á því kerfi við aldursmat kvikmynda og tölvuleikja hér á landi.

Rétt er að geta þess að sambærilegt ákvæði er að finna í löggjöf ýmissa nágrannaríkja Íslands, svo sem í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Bretlandi, og þykir það hafa gefist vel í framkvæmd. Jafnframt er slíkt vatnaskilaákvæði að finna í leiðbeinandi reglum hjá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU).

Í júní 2015 gaf fjölmiðlanefnd út leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um vernd barna gegn skaðlegu efni. Leiðbeiningarnar má finna hér.