Auglýsingar

Auglýsing er viðskiptaboð sem í felst hvers konar tilkynning sem er miðlað gegn endurgjaldi eða í þágu fjölmiðlaveitu og felur í sér kynningu á ímynd, vöru eða þjónustu. Hugtakið tekur til auglýsinga í hljóð- og myndmiðlum, prentmiðlum eða rafrænum ritmiðlum.

Auglýsing skal þannig úr garði gerð að ekki leiki vafi á að um auglýsingu er að ræða auk þess sem hún skal vera skýrt aðgreind frá öðru efni fjölmiðilsins. Auðkenningarskylda nær jafnt til allra tegunda fjölmiðla. Auðkenning getur t.d. verið myndskilti eða hljóðmerki í hljóð- og myndmiðlum og í prentmiðlum og rafrænum ritmiðlum getur auglýsing t.d. verið í ramma. Fjölmiðlar skulu í öllum tilvikum tryggja að einhverskonar auðkenning eigi sér stað enda er aðgreining auglýsinga frá ritstjórnarefni í viðkomandi fjölmiðli grundvallarþáttur í neytendavernd á þessum vettvangi. Auðkenning er forsenda þess að áhorfendur/hlustendur/lesendur viti hvaða umfjöllunarefni lýtur ritstjórnarlegri ákvörðun og hvaða efni birtist í fjölmiðlum vegna þess að greitt hefur verið fyrir umfjöllun.