Kostun

Kostun er samkvæmt lögum viðskiptaboð sem tekur til hvers konar framlaga opinbers fyrirtækis, einkafyrirtækis eða einstaklings til fjármögnunar einstakra dagskrárliða með það fyrir augum að vekja athygli á heiti viðkomandi, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum, enda fáist viðkomandi hvorki við hljóð- né myndmiðlun né framleiðslu hljóð- og myndverka.

Kostunartilkynningar eru eðli máls samkvæmt ólíkar auglýsingum. Kostun gefur fyrirtækjum færi á að kynna ímynd sína um leið og þau leggja fé af mörkum til dagskrárgerðar. Kostun felst í því að fyrirtæki tengi ímynd sína, vöru, vörumerki eða þjónustu við það sem kostað er í skiptum fyrir að hagnýta þau tengsl sem við það skapast í hugum neytenda. Kostaðir dagskrárliðir þurfa að vera auðkenndir sem slíkir þannig að nafn, vörumerki eða annað auðkenni kostanda komi fram í upphafi viðkomandi dagskrárliðar, á meðan honum stendur og/eða við lok hans. Kostunartilkynningar eiga að vera skýrt afmarkaðar frá hefðbundnum auglýsingum. Þær eiga ekki að hafa að geyma atburði eða atburðarás eða líkjast uppbyggingu auglýsinga að öðru leyti.

Kostunartilkynningum er ætlað það hlutverk annars vegar að gera áhorfendum og/hlustendum ljóst að aðrir en fjölmiðillinn hafi tekið þátt í fjármögnun á tilteknu efni og hins vegar að minna á kostanda sem slíkan.