Yfirlit yfir fjölmiðlamarkaðinn

Íslenskir fjölmiðlar eru ekki eyland. Fjölmiðlamarkaðurinn hér á landi hefur gengið í gegnum mikið umbreytingarskeið á undanförnum tveimur áratugum eða svo – skeið breytinga sem ekki sér fyrir endann á. Eins og þessar breytingar horfa við almenningi birtast þær helst í auknu framboði mismunandi fjölmiðla – innlendra sem erlendra – og í stórauknu efnisframboði. Á sama tíma hefur þróun á íslenskum fjölmiðlamarkaði verið með líkum hætti og annars staðar í átt til samþjöppunar á eignarhaldi og markaðsstöðu og myndunar fjölmiðlasamsteypa.

Fjölmiðlar draga vitanlega dám af þeim samfélagsháttum sem þeir eru sprottnir úr og af þeim lagalega ramma og rekstrarlegu umgjörð sem starfsemi þeirra er sett á hverjum tíma. Ástæður þeirra breytinga, sem orðið hafa í fjölmiðlun hér á landi að undanförnu, verða kannski raktar til fjögurra þátta öðrum fremur:

Fyrir það fyrsta varð afnám einkaréttar Ríkisútvarpsins í ársbyrjun 1986 til útsendinga hljóðvarps og sjónvarps til þess að nýjum aðilum gafst færi á að hasla sér völl í útvarpsrekstri.

Í annan stað hafa stórstígar tækniframfarir á sviði fjarskipta og rafrænnar miðlunar orðið til þess að ryðja að verulegu leyti úr vegi tæknilegum takmörkunum á aðgengi að útvarpsrásum og ýta undir samnýtingu, samþættingu og samruna ólíkra fjölmiðla.

Í þriðja lagi hefur aukinn frítími fólks og almenn hagsæld samfara margháttuðum breytingum í atvinnulífi hvatt til og stuðlað að þessum breytingum.

Í fjórða og síðasta lagi hafa bein tengsl milli fjölmiðla og stjórnmála rofnað. Í stað þess að einkareknir fjölmiðlar starfi samkvæmt pólitískum formerkjum bakhjarla sinna hafa þeir verið færðir undir stjórn markaðsaflanna og starfræktir samkvæmt því.

Með þessu er ekki sagt að fjölmiðlar hafi glatað pólitísku hlutverki sínu né að þeir geti ekki þjónað pólitískum tilgangi eigenda sinna.

Sökum fámennis hefur íslenski fjölmiðlamarkaðurinn þó nokkra sérstöðu. Fjölbreytni í efni og eignarhaldi á fjölmiðlum er ekki eins mikil hér og víðast þekkist hjá fjölmennari þjóðum. Sömuleiðis gerir smæð markaðarins það að verkum að hann er berskjaldaðri fyrir utanaðkomandi áföllum eins og berlega hefur sýnt sig að undanförnu í kjölfar þeirrar fjármálakreppu sem hér hefur verið við lýði frá haustinu 2008. Þeir erfiðleikar sem fylgt hafa í kjölfarið hafa ekki síður haft áhrif á fjölmiðla en á aðra atvinnustarfsemi og hafa m.a. leitt til fækkunar fjölmiðla og niðurskurðar og erfiðleika á ýmsum sviðum í rekstri þeirra fjölmiðla sem eftir standa.

Óhætt er þó að fullyrða að úrval fjölmiðla hér á landi er fjölbreytt þegar miðað er við fjölda miðla sem í boði eru og fámenni þjóðarinnar. Þetta á jafnt við um fjölmiðla sem fram undir þetta hafa stuðst við hefðbundnar miðlunarleiðir, þ.e. fréttablöð, hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvar og nýja miðla eða vefmiðla.