Hlutverk og saga

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 (fjölmiðlalög) og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Þá annast fjölmiðlanefnd þau hlutverk sem henni eru falin í öðrum lögum.

Með starfsemi fjölmiðlanefndar skal stuðlað að því að markmiðum og tilgangi fjölmiðlalaga verði náð. Henni er ætlað að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga.

Markmið fjölmiðlalaga er að samræma undir einni löggjöf alla fjölmiðlun óháð því á hvaða formi miðlun fer fram. Því leysir fjölmiðlanefnd af hólmi útvarpsréttarnefnd sem hafði það hlutverk að fylgjast með hljóðvarpi og sjónvarpi frá árinu 1986 til 1. september 2011 þegar fjölmiðlanefnd tók til starfa.

Fjölmiðlanefnd annast samskipti við einstaklinga, fyrirtæki, fjölmiðla, stjórnvöld og dómstóla auk þess sem hún annast samskipti við erlend fjölmiðlaeftirlit og aðrar erlendar stofnanir og samtök sem fást við málefni fjölmiðla.

Starfsreglur fjölmiðlanefndar